04.05.1981
Efri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3930 í B-deild Alþingistíðinda. (3970)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar hefur unnið mjög merkilegt starf við að endurskoða og umbylta því frv. sem lagt var hér fram af hæstv. dómsmrh. Það efni, sem frv. og brtt. fjalla um, er senn með flóknustu og brýnustu viðfangsefnum í löggjöf í þróuðum samfélögum sem miða að því að vernda rétt einstaklinga gagnvart hinum síauknu möguleikum til að opinberar eða hálfopinberar stofnanir eða fyrirtækjaupplýsingakerfi geti hindrað frelsi þeirra á einn eða annan hátt.

Það er mjög virðingarvert að nefndin skuli hafa lagt í þetta frv. svo mikla vinnu sem kom fram í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Hins vegar er, eins og hann sjálfur gat um í lok sinnar ræðu, um mjög viðamikið atriði að ræða. Það væri mjög æskilegt ef við þm. þessarar deildar fengjum aðeins tíma til að líta á þessar brtt. og ræða þær nánar við nm., jafnvel hér í umr., og e. t. v, flytja aðrar. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta og einnig frsm. og formann allshn., að þessari umr. verði ekki lokið nú, heldur verði henni frestað, svo að möguleiki sé til þess að skýra nánar einstök atriði og ræða þau betur áður en gengið er til atkvgr. um þær fjölmörgu brtt. sem hér hafa verið lagðar fram. Erindi mitt í ræðustólinn er eingöngu að fara þess á leit við formann allshn. og frsm. og hæstv. forseta, að veittir verði örfáir dagar til þess að við getum skoðað þetta og þá e. t. v, haldið aðeins áfram umr. til nánari skýringar um einstök atriði og kannske flutt viðbótartillögur við þær ítarlegu brtt. sem nefndin hefur flutt, að umr. verði ekki lokið nú, heldur verði henni frestað þar til síðar í þessari viku.