04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3974)

7. mál, horfnir menn

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. þessarar deildar um frv. til l. um horfna menn. Þessu frv. er ætlað að koma í staðinn fyrir lög um sönnun fyrir dauða manna sem vænta má að farist hafi af slysum, nr. 23 frá 19. júní 1922. Á þeim lögum voru gerðar breytingar með lögum nr. 61 frá 1980 sem í nokkrum tilfellum stytta verulega þá fresti sem ákveðnir eru í þeim lögum sem ég gat um frá árinu 1922.

Nefndin hefur athugað þetta frv. rækilega og fengið til viðræðna við sig ráðuneytisstjórann í dómsmrn. Að þeim athugunum loknum var nefndin sammála um að mæla með því að frv. yrði samþykkt, en að gerðar yrðu á því fjórar breytingar sem stytta fresti samkv. frv. og gera þá öllu meira í takt við það sem ákveðið var með lögum nr. 61 frá 1980. Nefndin er sammála um þessa afgreiðslu málsins og leggur til við deildina að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.