04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3937 í B-deild Alþingistíðinda. (3986)

270. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá menntmn. Nd. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 112 frá 1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila. Þetta nál. er stutt. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Friðjón Þórðarson og Halldór Blöndal.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að gerð verði námsskrá á vegum menntmrn. sem kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum í samráði við þá aðila er að uppeldis- og skólamálum vinna.

Ég vil aðeins benda á upphaf grg. með frv., en þar segir: „Með gjörbreyttum þjóðfélagsháttum nú á síðustu áratugum stækkar í sífellu sá hópur barna sem dvelst á dagvistarheimilum fyrstu ár ævi sinnar.“ Það má líta á dagvistarstofnanir sem fyrsta stig skóla. Því sýnist full ástæða til að huga að því hverjum markmiðum og leiðum skuli stefnt að með uppeldisstarfi, sem fram fer á dagvistarheimilum, og að gerð verði ákveðin námskrá fyrir þessi heimili.

Við nm. töldum að þetta frv., þó stutt væri, ætti fullan rétt á sér og mælum með því, að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 546.