04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

302. mál, lögréttulög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það ber að fagna því að þetta frv. til lögréttulaga hefur nú enn á ný verið lagt fyrir Alþingi þó svo að ljóst sé að það er svo langt á þingtíma liðið að væntanlega gefst ekki kostur á að afgreiða það endanlega nú. Eins og hæstv. dómsmrh. gat um mun þetta vera í fimmta skipti sem þetta frv. er lagt fyrir.

Mestu máli skiptir auðvitað sú grundvallarhugsun í frv. að auðvelda og hraða afgreiðslu smærri mála í gegnum dómskerfið. Hitt virðist vera vandi nú eins og raunar áður, að það er nokkuð á huldu, nokkuð óljóst hvað þetta frv. kemur til með að kosta, hversu mikinn kostnað það hefur í för með sér. Ég hygg að það sé raunar einasti flöskuhálsinn, sem eftir er, og það sé það, sem hv. alþm. muni fyrst og fremst spyrjast fyrir um, og það sé verkefni allshn., sem þetta frv. kemur til með að fá, að fá gerðan upp kostnaðarreikning við framkvæmd þess.

Því miður er þetta frv. svo seint fram komið að væntanlega gefst ekki tími til að afgreiða það nú. Ég vil þó nota tækifærið til að lýsa yfir fyllsta stuðningi við efni þess og þá grundvallarhugsun að flýta málum í gegnum dómskerfið.