04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3996)

302. mál, lögréttulög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja þetta frv. fram því að ég held að það sé merkilegt nýmæli sem í því felst. Hins vegar er málsmeðferðin orðin býsna óvenjuleg. Það er búið að sýna þetta frv. hér hvað eftir annað og alltaf undir vorið. Það hefur aldrei hlotið þá efnismeðferð sem þyrfti hér í þingi og hefur þarafleiðandi aldrei hlotið afgreiðslu, og sýnilegt er að það mun ekki verða á þessu vori fremur en undanfarið. Þess vegna vil ég biðja hæstv. dómsmrh. að hafa hratt á hæli næsta haust og leggja frv. fram tímanlegar svo að það megi hljóta afgreiðslu á næsta þingi því að ég held að það væri fengur að því skipulagi sem það gerir ráð fyrir.

Eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um áðan er nokkuð óljóst hvað þetta muni kosta. Þarf að skilgreina það markvissar en gert hefur verið en svigrúm ætti að vinnast til að gera það í sumar.

Ég endurtek þá ósk mína að við fáum að sjá þetta mál fyrr á næsta þingi en venjan hefur verið undanfarið.