05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (4002)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Arnason):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. hefur borið upp svohljóðandi fsp.: „Hafa verið settar reglur um greiðslu rekstrar- og afurðalána landbúnaðarins í samræmi við ályktun Alþingis frá 22. maí 1979, frá því að fsp. um það mál á þskj. 57 var svarað?“

Í nóvembermánuði á síðasta ári svaraði ég fsp. frá hv. 5. landsk. þm., en 1. tölul. þeirrar fsp. var efnislega á sömu leið og sú fsp. sem hann hefur nú borið fram. Í svari mínu voru rakin svör Seðlabankans, Landsbankans og Búnaðarbankans við bréfi landbrn. frá því í júlí 1979 þar sem þess var farið á leit, að bankarnir skiluðu tillögum til rn. um framkvæmd á ályktun Alþingis frá 22. maí 1979, en ályktunin lýsir vilja þingsins til þess að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.

Það kom einnig fram í svari mínu, að landbrh. hefði í mars á síðasta ári falið nefnd, er vann að gerð tillagna um breytingar á rekstrar- og afurðalánum landbúnaðarins, að útbúa sérstakar tillögur til rn. um tilhögun á afgreiðslu þessara lána í samræmi við áðurnefnda þál. Nefnd þessi lauk störfum og skilaði áliti til ráðh. 18. febr. s. l.

Í álitinu lýsir nefndin gildandi tilhögun á afgreiðslu rekstrar- og afurðalánanna. Um afurðalán segir þar að vegna sauðfjárafurða séu lánin veitt þeim, sem afurðirnar hafa undir höndum, frá 1. nóv. ár hvert gegn veði í birgðum af kjöti og öðrum sláturafurðum. Eru lánin 69–72% af heildsöluverði og ætluð til þess að hægt sé að greiða bændum að haustinu minnst 75% af föstu grundvallarverði í samræmi við ákvörðun Framleiðsluráðs landbúnaðarins um lágmarksbókunarhlutfall af verði afurðanna. Afurðalán út á mjólkurvörur eru einungis veitt á vinnsluvörur svo sem osta og smjör. Þau eru veitt vinnslufyrirtækjum, sem eiga vöruna, gegn veðsetningu hennar og eru ekki afgreidd fyrr en varan er komin í geymsluhæft ástand. Þá er jafnframt búið að greiða bændum 65–85% grundvallarverðsins fyrir mjólkina.

Um rekstrarlán vegna mjólkurframleiðslu segir í álitinu að þau séu ekki veitt bændum á skipulagsbundinn hátt, heldur verði hver bóndi um sig að útvega sér lán frá lánastofnunum eða viðskiptafyrirtækjum, svo sem áburðarverksmiðju, kaupfélögum eða öðrum slíkum aðilum, og setja þær tryggingar sem krafist er. Öðru máli gegnir um rekstrarlán vegna sauðfjárframleiðslu. Þau eru veitt á tímabilinu mars-ágúst ár hvert og endurgreiðast þegar veiting afurðalána fer fram í nóvembermánuði. Þess er krafist, að lántakandi sé hinn sami í báðum tilvikum. Fjárhæð lánanna ákveður Seðlabankinn árlega, ákveðna krónutölu á hvern slátraðan dilk miðað við næsta haust á undan. Viðskiptabankarnir veita viðbótarlán sem eru háð lánstrausti hlutaðeigandi aðila svo og almennum ástæðum í lánamálum afurðanna. Nefndin vekur í álitinu athygli á þeirri leið er bent er á í svari Seðlabankans við bréfi landbrn. í júlímánuði 1979. Má um þá leið vísa til áðurnefnds svars míns í nóvembermánuði á síðasta ári. Á grundvelli þess, sem áður er fram komið, var meginniðurstaða nefndarinnar samt sú að mæla ekki með breytingum á afgreiðslu rekstrar- og afurðalána landbúnaðarins er miða að því að lánin verði veitt beint til bænda. En eins og hér segir áður, vísa ég til þess sem fram kemur í svari mínu til hv. þm. á fyrra ári um þá leið sem Seðlabankinn benti á í þessum efnum.