05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (4018)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta rangtúlkanir hv. þm. Halldórs Blöndals og Péturs Sigurðssonar á þeim ummælum sem ég lét hér falla um prófessor Jónatan Þórmundsson. Ég sagði alls ekki að prófessorinn hefði mælt gegn betri vitund. Ég sagði einfaldlega tvennt. Annað var að hann hefði lotið í lægra haldi í fræðilegri umræðu við forsrh. að mínum dómi á fundi þessarar nefndar. Eins og alkunna er, eru mjög skiptar skoðanir innan lögfræði um margvísleg málefni. Í öðru lagi sagði ég að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hefði fengið hann til þess að koma á fund nefndarinnar og því verður ekki á móti mælt, vegna þess að það var samkv. ósk þessara aðila sem prófessorinn mætti á fundum nefndarinnar. Þetta er það eina sem ég sagði um þennan ágæta fræðimann að öðru leyti, prófessor Jónatan Þórmundsson. Hitt blasir svo við sem staðreynd, að tveir fyrrv. prófessorar í stjórnskipunarrétti, þeirri fræðigrein sem fjallar um stjórnarskrá Íslands, prófessor Gunnar Thoroddsen og prófessor Ólafur Jóhannsson, greiddu báðir í Ed. Alþingis atkv. með þessum lögum. Ef stórsnillingarnir hv. þm. Halldór Blöndal og Eyjólfur Konráð Jónsson halda að þessir tveir fyrrv. prófessorar í stjórnskipunarrétti hafi greitt atkv. með frv. sem brýtur stjórnarskrána, þá er mjög einföld leið fyrir þessa tvo snillinga og það er að höfða mál gegn hæstv. forsrh. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur lögfræðiréttindi og væntanlega manndóm til þess að flytja það mál sjálfur, og við getum þá fengið úrskurð Hæstaréttar í þessu deilumáli.

Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram. Hitt er hins vegar rétt skilið hjá Halldóri Blöndal, að við höfum ýmsir staðið í því hér bæði að bjarga virðingu Alþingis og stuðla að virðingu Háskóla Íslands. Ég get hins vegar ekki gert að því, þó að Halldóri Blöndal líði jafnilla og þingheimur hefur mátt horfa á undanfarna mánuði yfir því, hvernig við björgum virðingu þessarar stofnunar.