10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta var langt mál hjá hæstv. iðnrh. og almenn umræða um iðnað og stöðu iðnaðarins og væntanlegar bætur honum til hagsbóta. En ég verð að segja alveg eins og er, að þvílíka fávisku um verslunarhlið og dreifingu iðnaðarvara og á vörum almennt hef ég sjaldan heyrt frá ábyrgum aðila sem menn skyldu ætla að hefði kynnt sér málin betur en raun ber vitni.

Hvað er ráðh. að tala um þegar hann andmælir þeim háværu mótmælaröddum sem koma frá innflytjendum og smásölumönnum? Hverja heldur ráðh. að hann sé að verja? Heldur hann að hann sé að verja iðnaðinn sem slíkan með því að gera ráðstafanir gegn þessum aðilum? Ég veit ekki annað en sælgætisiðnaðurinn hafi engan milliliðakostnað og afskaplega lítinn auglýsingakostnað. Sælgætisiðnaðurinn er því í þessu tilfelli bæði framleiðandi og heildsali og eyðir afskaplega litlu í auglýsingar, eins og við verðum vör við og þjóðin öll. En allt það, sem kemur frá hinum vonda innflutningi, er ekki sett beint á markaðinn. Það er sem sagt margfalt meiri ágóði í prósentum af þessum íslenska iðnaði, sem við erum að tala um, en þeim erlenda, en erlendi iðnaðurinn er þó samkeppnisfær. Þrátt fyrir 40% gjaldið er hann enn þá samkeppnisfær. Ég get ekki séð af eigin reynslu, af því að fyrirtækið, sem ég rek, flytur inn sælgæti, að eitthvað dragi úr pöntunum verslana á erlendu sælgæti.

Hvað er hér að ske? Er ekki ríkisstj. sjálf að afla sér þarna viðbótartekna? Sér hún ekki hér eitt tækifæri til viðbótar til að hafa meira ráðstöfunarfé sjálf? Ástæðan til þess, að ég tók þátt í þessum umr., var einmitt sú að fá það staðfest að svo væri. Það var staðfest af hæstv. fjmrh. Ég held sem sagt að þessar ráðstafanir hafi ekki verið gerðar til að koma í veg fyrir hrun vegna versnandi ástands í atvinnugreininni, heldur gripið til þessara verndarráðstafana til að afla ríkissjóði meiri ráðstöfunartekna.

Málflutningur hæstv. ráðh. kemur mér ekkert á óvart og á ekki að koma neinum lýðræðissinnum á óvart. Þar stangast á lífsskoðanir. Það er allt og sumt. Það þarf ekki að flytja langa ræðu eða breiða yfir það mál, sem hér er á dagskrá, með löngu tali fram og til baka um hag og óhag íslensks iðnaðar. Það er einungis til að dreifa huganum frá því máli sem hér er á dagskrá.

Það má vera, eins og hæstv. ráðh. minntist á, að við eigum ekki að vera svo lítilþægir að nota okkur ekki þá möguleika sem samningar við annaðhvort erlend samtök eða aðrar þjóðir bjóða okkur. En eigum við að vera það smásmugulegir að nota okkur hverja smugu og kænskubrögð til að vera einhvern veginn öðruvísi en aðrir aðilar í þeim samtökum? Annars á hver og einn að þóknast sínum hvötum hverju sinni. En að mínu mati er það heldur leiðigjarnt að gera samninga og koma svo til baka og biðja um undanþágur.

Ég hef áður tekið hér sem dæmi innflutning á annarri vörutegund sem er dæmigerð um álagningu ríkisins á innfluttar vörur. — Ég vil, meðan ég man, taka undir það með hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, hv. 1. þm. Reykv., að þetta er ekkert smámál. Þetta er mjög stórt mál. — En ég hef áður minnst á það í þessum ræðustól að tollheimta af verðhækkunum á olíuvörum t.d., er siðlaus tekjuöflun ríkissjóðs. Eitt er það að verða að taka á sig erlendar hækkanir og að þær komi í þeirri krónutölu á útsöluverð til neytenda, annað að tolla sjálfan vandann og margfalda þannig verðbólguna heima fyrir og vöruna til neytandans og enn annað að taka á sig þá krónutöluhækkun sem vandinn skapar. Halda menn að ríkissjóður noti tolltekjur vegna þessa vanda til að greiða verðið niður innanlands? Ekki aldeilis. Þá kemur verðjöfnunargjald á innlenda orku til viðbótar til að standa undir þeim útgjöldum sem ríkissjóður á að hafa fyrir einstaklingana af þessum aukna vanda. Það eru svona mál hér í gangi. Þó að um smærri upphæð sé að ræða er höfuðreglan sú sama.

Samkvæmt fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum dögum er bent á að á þessu ári muni innflutningur ná um 800 millj. samtals, en á næsta ári um 1200 millj. kr. 40% af þessu er talsvert fé. Hæstv. fjmrh. staðfesti það, þegar ég gerði fyrirspurn til hans, að þetta fé rynni í ríkissjóð, en að vísu mundi ríkissjóður styðja íslenskan iðnað á móti að geðþótta. Þetta eru viðbótartekjur við það sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður hefði til ráðstöfunar við gerð síðustu fjárlaga. Þess vegna vil ég svara hv. 3. þm. Vestf. því, að hér er ekki verið að styðja íslenskan iðnað með opinberu fé. Það er ekki verið að greiða íslenskum iðnaði til baka af eðlilegum tekjum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum. Það er verið að leggja sérstakan skatt á fólkið sem kaupir þessa vörutegund, og er verið að styrkja þennan iðnað eða kannske einhvern annan af því ráðstöfunarfé fólksins sem það átti að eiga eftir þegar ríkissjóður var búinn að fá sitt samkvæmt fjárlögum og álagningu samkv. þeim. Það er þetta sem ég vil gera athugasemdir við.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér upp svar fjmrh. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ég verð að játa að ég er ekki með gögn hér með mér sem geta upplýst hv. þm. um hve mikið hefur komið inn í ríkissjóð vegna þessarar álagningar, en mér er nær að halda að það sé tiltölulega mjög smá upphæð. Það var flutt inn í landið feiknarlega mikið magn af þessum vörum á fyrri hluta ársins. Það voru réttar tölur sem hv. þm. nefndi. Það var flutt inn sælgæti sem nam tæpum 1300 þús. dollurum. Þegar svo gjald þetta var lagt á tók mjög snögglega fyrir þennan innflutning og ég held að það sé nokkuð ljóst, að bæði neytendur og innflytjendur kipptu að sér höndum. Ég held því að tolltekjur ríkissjóðs á þessu ári muni tæpast nema meira en 200–300 millj. kr.“

Þetta stangast á við upplýsingar sem hæstv. fjmrh. gefur í fjárlagaræðu sinni þar sem hann talar um að á þessu ári verði tekjurnar 800 millj., en í svarinu til mín er talað um að þær geti orðið 200–300 millj. (Gripið fram í.) Á næsta ári, já. — Hæstv. ráðh. heldur áfram:

Hv. þm. spurði að því, hvort þessar tekjur hefðu runnið til málefna iðnaðarins eða hvort þær hefðu runnið beint í ríkissjóð. Því er til að svara, að allar tekjur, sem inn koma, renna í ríkissjóð nema þess sé sérstaklega getið, og að sjálfsögðu væri það ekki í samræmi við þessi brbl. ef fjmrn. hefði tekið ákvörðun um að láta einhverja aðra hafa þetta fé en ríkissjóð. Það er ekkert ákvæði um það í lögunum að svo skuli gert og væri að sjálfsögðu lögbrot ef tilraun væri gerð til þess.

Auðvitað má velta því fyrir sér, hvort þetta hefði átt að verða markaður tekjustofn, hvort þetta hefði átt að renna sérstaklega til þarfa iðnaðarins. Ég vísa til þess, að í fjárlögum, sem nú hafa verið lögð fram, er verið að auka framlög til iðnaðar með ýmsum hætti og ég held að það nægi að vísa til þess, að sjóðir iðnaðarins fá meira fé til ráðstöfunar en verið hefur. Þannig held ég að það sé í sjálfu sér aukaatriði hvort þessi skattur rennur til iðnfyrirtækja í landinu eða hvort hann rennur í ríkissjóð sem síðan styrkir uppbyggingu iðnaðar og eflingu iðnaðar með ýmsum öðrum hætti.“

Það er einmitt hér sem skoðun mín stangast á við þær hugmyndir sem hér koma fram og eins frv. sjálft. Hér er talað um tímabundið gjald, tímabundna innheimtu 40% gjalds við innflutning, sem á að standa í 18 mánuði. Nú hefur hæstv. iðnrh. upplýst að þetta gjald skuli standa lengur. Þessi 40% tollur á að vera 18 mánuði, síðan á hann að smálækka eftir því hvað ráðh. sjálfur er lengi í stjórn. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur hjá hv. þm.; Þetta á að lækka á tveim árum, skilst mér. Ef það er misskilningur leiðréttir hæstv. ráðh. það. En ég skildi hann þannig, að hann hafi hugsað sér að þetta gjald stæði 18 mánuði og síðan mundi það lækka í þrepum. Það held ég að ég muni nokkuð orðrétt. En það getur vel verið að það þurfi að líta í afrit af ræðum okkar til að sjá hvað stangast á.

Ég verð að segja alveg eins og er um þetta gjald, sem er orðið talsvert hátt gjald miðað við þann innflutning sem er á sælgæti, — 40% tollur er hátt gjald á vöru sem er tollfrjáls samkv. tollskrá, — að ég tel sjálfsagt að eyrnamerkja það sem 40% bráðabirgðainnflutningsgjald til hagræðingar og endurnýjunar á tækjum o.fl. í sælgætisiðnaðinum, þannig að eftir þá 18 mánuði, sem þetta gjald á að standa, verði sælgætisiðnaðurinn eins samkeppnishæfur og hann getur orðið, og eðlileg samskipti milli landa á sviði viðskipta í þessari iðngrein geti þá átt sér stað.

Ég verð að segja eins og er, ef ég má orða það þannig, að ríkissjóður má ekki koma fram eins og óseðjandi og soga til sín óeðlilega mikið af því fé sem fólkið í landinu á að hafa til frjálsrar ráðstöfunar eftir að það hefur greitt öll gjöld sem lögð eru á samkv. þörfum sem koma fram við gerð fjárl. eða samkv. þeim skattalögum eða skattstiga sem gildir hverju sinni. Það eru ekki heiðarleg vinnubrögð að bæta þar ofan á óbeinum sköttum. Ég vil af reynslu segja það, að bæði bein og óbein gjöld á fólkið í landinu eru löngu orðin allt of há. Ef menn færu af skrifstofunum út á meðal fólksins, hlustuðu á það, töluðu við það, litu upp úr skýrslugerðum ráðuneytanna, held ég að þeir kæmust fljótt að raun um að fólkið grátbiður landsfeður um vægð við nýjum og nýjum sköttum. Í guðanna bænum, bænheyrið fólkið eða farið þið frá!