05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

223. mál, fyrirmæli Ríkisbókhalds

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Eiður Guðnason hefur fyrir alllöngu lagt fram fsp. um fyrirmæli Ríkisbókhalds. Svar við þessari fsp. var tilbúið fyrir alllöngu, en hefur ekki komið til umr. af ýmsum ástæðum fyrr en nú.

Spurningin er: Hvar eiga stoð í lögum þau fyrirmæli Ríkisbókhalds að nota ekki aura í greiðslum af hálfu ríkisins, m. a. í eftirgreindum tilvikum: a) við uppgjör launa, b) við greiðslu tryggingabóta og lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins?

Í svari við fsp., sem var borin fram af hv. 1. þm. Reykn. á s. l. hausti, greindi ég frá þeirri tilhögun sem notuð yrði við greiðslu launa og tryggingabóta eftir gjaldmiðilsbreytinguna. Ég vil leyfa mér að endurtaka nú hluta þess er ég þá sagði um notkun aura í greiðslum og bókhaldi ríkisins, með leyfi forseta:

„Allt frá 1961 hefur ríkissjóður greitt laun í heilum krónum. Hið sama hafa flestir aðrir vinnuveitendur gert er færa launabókhald í skýrsluvélum. Í framhaldi af setningu laga um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils gerðu Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar viðskiptavinum sínum ljóst að eigi væri í öllum tilvikum laust sæti fyrir kommu innan þeirra kerfa er nú væru notuð til launaúrvinnslu og bókhalds, gerð nýrra kerfa væri tímafrek og kostnaður við þá vinnu næmi tugum millj. kr. Sams konar vandamál eru ljós hjá mörgum sveitarfélögum. Fjmrn. hefur rætt það mál við aðalviðsemjendur ríkissjóðs um kaup, hvort það mundi verða efni gagnrýni af þeirra hálfu yrðu einstakar tegundir launa reiknaðar í heilum krónum, tímakaup yrði hins vegar í aurum og aðrar þær stærðir sem margfaldaðar verða. Að undangenginni athugun viðsemjenda ríkissjóðs á launabókhaldi og hugsanlegum frávikum, sem líklegt er að komi til greina í þessu tilviki, hafa fulltrúar launþega tjáð fjmrn. að þeir teldu slíkan útreikning eigi andstæðan hagsmunum umbjóðenda sinna. Í samræmi við framanritað er við það miðað að launagreiðslur og bótagreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins verði í hellum krónum.“

Þetta kom sem sagt fram í svari mínu við skyldri fsp. á s. l. hausti.

Til viðbótar vil ég nefna þetta: Af hálfu fjmrn. er lítið svo á að greiðsla launa sé fyrst og fremst samningsatriði við þá sem eru í þjónustu ríkisins. Greiðsla launa í heilum krónum er með fullri vitund viðsemjenda ríkissjóðs og hafa þeir að lokinni athugun á launagögnum ríkisins eigi talið nein efni til aðfinnslu. Alþingi samþykkti fyrir áramótin lög þess efnis, að öll opinber gjöld skyldi greiða í heilum krónum svo og útgreiðslur úr ríkissjóði tengdar opinberum gjöldum, t. d. endurgreiðslur skatta eða barnabóta. Sérstök lög eru ekki til um greiðslu launa eða tryggingabóta. Með tilliti til samstarfs ríkissjóðs við viðsemjendur sína um notkun aura í launagreiðslum svo og að mikið af greiðslum tryggingabóta eru heimildargreiðslur verður ekki séð að sérstakra laga sé þörf um það efni.

Herra forseti. Ég vænti þess, að fsp. sé með þessu svarað.