05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (4023)

223. mál, fyrirmæli Ríkisbókhalds

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. svör hans. Sem mig grunaði á þessi ákvörðun Ríkisbókhalds enga stoð í lögum. Einstaklingur, sem sendir ríkinu reikning upp á 100.45 kr. og fær senda ávísun upp á 100 kr., hlýtur að geta leitað réttar síns til að fá upphæðina greidda að fullu vegna þess að þetta athæfi fæ ég ekki með nokkru móti séð að geti verið löglegt.

Hæstv. fjmrh. fór um það mörgum orðum, hver kostnaður væri því samfara að breyta þessu tölvukerfi, væntanlega Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar. Víst er það, að nokkur kostnaður er því samfara. Ég hygg hins vegar að það hefði verið fullkomlega réttlætanlegt að leggja út í þann kostnað, m. a. vegna þess, eins og ég sagði áðan, að þetta er síður en svo til einföldunar hjá þeim sem fara höndum um peninga af hálfu ríkisins, vegna þess að þeir verða eftir sem áður að hafa sérstakt aurabókhald í sinni vörslu.

Hinn 10. febr. s. l. skrifaði fjmrn. — Ríkisbókhald — Póst- og símamálastofnun sem gert hafði aths. við þetta, að aurar skyldu ekki notaðir í greiðslum, sem skiptir auðvitað verulegu máli fyrir stofnun eins og Póst- og símamálastofnun. Í þessu bréfi Ríkisbókhalds, sem væntanlega og áreiðanlega er skrifað með samþykki fjmrn., segir m. a., með leyfi forseta:

„Framangreind afstaða Ríkisbókhaldsins byggist á því, að eitt og sama tölvubókhaldskerfi verði að gilda fyrir ríkið og hagkvæmara sé, þegar tekið er tillit til heildarinnar og til þróunar mála á næstu árum, að leggja ekki í þann kostnað að breyta þeim tölvubókhaldsþáttum sem notkun aurasæta hefði áhrif á.“ Og síðan bið ég þm. að taka sérstaklega eftir: „Þetta hagkvæmnismat tekur mið af þverrandi gildi aura á verðbólgutímum, því sé hagkvæmara að stuðla að því að draga úr auranotkun í viðskiptum fremur en breyta bókhaldskerfinu.“ Þessi setning: „Þetta hagkvæmnismat tekur mið af þverrandi gildi aura á verðbólgutímum“ — skrifuð af hálfu fjmrn. ber ekki vott um að ráðherrarnir hafi mikla trú á þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. þykist vera að gera til viðnáms verðbólgunni.

Ég verð satt að segja að lýsa furðu minni á þeirri afstöðu fjmrn. og Ríkisbókhalds, sem á sér enga stoð í lögum, að aurar skuli ekki vera notaðir í greiðslum af hálfu ríkissjóðs eins og ætlast er til og eins og gerist og gengur í almennu viðskiptalífi og viðskiptum manna á meðal hér á landi. Mér finnst þetta satt að segja furðulegt og fáránlegt, og eins og hér hefur komið fram á þetta enga stoð í lögum.