05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3965 í B-deild Alþingistíðinda. (4029)

273. mál, tæknisafn

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram á Alþingi fsp. á þskj. 549 til menntmrh., svohljóðandi:

„Eru á prjónunum áform um að setja á stofn tæknisafn eða tæknideild við Þjóðminjasafnið?“

Þessi fsp. er borin fram vegna þeirrar skoðunar fyrirspyrjanda að ekki sé seinna vænna að hefjast handa um skipulega söfnun ýmissa véla og tækja sem enn eru til í landinu og tengjast atvinnusögu og atvinnuþróun landsmanna. Á því er veruleg hætta, að árlega tapist eða fari forgörðum í hreinsunum hlutir sem verulegt gildi hafa í þessu sambandi. Eins og flestum er kunnugt eru í flestum nágrannalöndum okkar myndarleg tæknisöfn þar sem eru varðveittar ýmsar vélar og tæki sem tengjast atvinnusögu þjóðarinnar allt frá bernsku ýmissa atvinnugreina. Eru þar oft fyrirferðarmikil tæki eða vélar í samgöngumálum eða frá byrjun rafvæðingar, útvarps, síma o. s. frv. Söfn af þessu tagi eru menningarsögulegs eðlis og ekki bara til ánægju, heldur eru þau mikið notuð við kennslu og þannig upp sett að þau sýni þróun atvinnulífs og tækni. Á nýtískusöfnum eru ekki bara dauðir hlutir til sýnis, heldur er unnt að láta gamlar vélar hreyfast og sýna hvernig þær hafa verið notaðar, sýndar eru kvikmyndir og fleira í þeim dúr, þannig að safnið geti orðið þeim, sem það sækja, til sem mestrar ánægju og fræðslu.

Segja má að í íslensku þjóðfélagi sé kannske nokkur sérstaða varðandi þessi mál þar sem okkar þjóðfélag var framan af bændaþjóðfélag og þjóðfélag útvegsbænda. Í þeirri ágætu greinargerð, sem menntmrh. hefur látið dreifa hér í þinginu í dag koma sérstaklega fram ýmsar upplýsingar um það, hvaða breytingar verða í okkar þjóðfélagi einmitt upp úr aldamótunum síðustu. Þá gerast ýmsir hlutir og koma fram einmitt ýmsar nýjungar sem gaman væri að eiga minjar um á slíku safni. Þarna er getið um það þegar fyrsti bíllinn kemur til landsins, líklega um 1904. Árið 1902 er fyrsta vélin sett í íslenskan bát, 1905 reist fyrsta rafstöðin, 1906 lagður sími til útlanda, 1905 kemur hingað fyrsti gufutogarinn og þannig mætti lengi telja. Enginn vafi er á því, að það er mikil nauðsyn að reyna að varðveita elstu tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði. Enn eru tök á að reyna að varðveita eða ná til slíks safns fyrstu vélknúnu jarðvinnslutækjunum. Ég hef gaman af að geta þess hér, að ekki alls fyrir löngu skoðaði ég ölgerð Egils Skallagrímssonar. Einmitt hér í Reykjavík var hún reist upp úr 1920 og mun þá hafa verið með fullkomnari ölgerðum sem höfðu verið reistar. Þessi ölgerð við Frakkastíginn er enn í gangi. Tæki hennar eru orðin gömul og merkileg og væri vafalaust mikils virði að varðveita þau þegar ölgerðin flytur í nýtt húsnæði uppi í Borgarmýri, væntanlega innan fárra ára.

Öll þessi tæki bera vitni merkilegri sögu, og það er enginn vafi á því, að það er mikils virði að reyna að halda við ýmsum vörðum á þeirri leið. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að vinna skipulega að því að bjarga og helda saman ýmsum búnaði sem enn er til í landinu, slíkum sem hér er um talað. Eðlilegast er vafalaust að tæknideild væri sett upp í tengslum við Þjóðminjasafnið, en björgunarstarf þarf að hefja hið allra fyrsta og virkja áhugamenn einmitt í því. Mér dettur nú í hug, þegar rætt er um það, að enginn vafi er á því, að í ýmsum hreinsunum úti um land tapast árlega tæki sem fengur væri að fá í slíkt safn. Nú erum við að leggja hér fram einmitt frv. um stálbræðslu og ætlum að nýta þar brotajárn sem safnað verður um allt land. Ég vil leggja áherslu á það, að víða eru enn geymdir hlutir sem ættu heima á slíku tæknisafni. Ég held þess vegna að það sé áríðandi að útvega sem fyrst geymsluaðstöðu fyrir slíka hluti, þó að ekki sé ráðist í miklar byggingarframkvæmdir, en útvega sem fyrst geymsluaðstöðu og fá mann til starfa til þess að draga saman þessa hluti og reyna að koma í veg fyrir að þeir fari forgörðum.