10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans sem ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með. Mér þykir nokkuð hart að hæstv. iðnrh. skuli nú upplýsa að ekki stendur til að flytja frv. til breytinga á tollskrárlögum, sem auðvitað var ætlunin þegar frv. var vísað til ríkisstj. á sínum tíma, heldur lætur hæstv. ríkisstj. sér nægja að breyta auglýsingu um þetta efni. Þótt það sé auðvitað skref í rétta átt verður lagabreyting að koma til framkvæmda fyrr en síðar. Mér þykir nokkuð hart að það skuli vera gefnar út fréttatilkynningar af hálfu rn. þar sem sagt sé að von sé á slíkum aðgerðum á tilteknum tíma. Þegar mánuði eftir að framkvæmd á að vera hafin er spurt um þetta í sölum Alþingis, þá tala menn um að nú sé verið að ljúka athugun á þessu máli. Ég vonast til þess að ekki líði vikur, heldur kannske örfáir dagar þar til þessu verður hrundið í framkvæmd, því að mér er fullkunnugt um að breytingin á auglýsingunni hefur verið tilbúin í mjög langan tíma og er fyrst og fremst á þvælingi í fjmrn. og þarf einungis að koma henni til birtingar.

Varðandi frv. finnst mér skipta mestu máli fyrir hv. þm., sem fær málið til meðferðar, að skoða nákvæmlega, hvort hún telji að þróunaraðgerðirnar, sem efnt hefur verið til, það þróunarátak, sem hæstv. ráðh. og félag iðnrekenda hafa efnt til vegna vanda sælgætisiðnaðarins, sé líklegt til þess að hafa einhverja þýðingu. Þetta skiptir meginmáli. (Forseti hringir.) Ég lýk máli mínu innan tíðar. — Ef svarið er nei á gjaldið að falla brott. Sé svarið já er eðlilegt að efnt sé til slíkra tímabundinna aðgerða og þá með stiglækkandi aðferð.

Ég vil að lokum benda á það, sem kom reyndar fram í máli Alberts Guðmundssonar, að gert er ráð fyrir að þetta gjald skili 300 millj. kr. á þessu ári og 1200 millj. á næsta ári, og standi í tvo mánuði 1982. Nálægt 2 milljörðum mun koma í ríkissjóð með þessum hætti. Það, sem ég vildi koma á framfæri, er sú sjálfsagða krafa, að þessir fjármunir, sem þarna verða til, verði til þess að skattar af fyrirtækjum verði almennt lækkaðir í staðinn. Það tel ég vera mjög mikilvægt atriði sem ekki hefur komið fram í þessari umr.