05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

390. mál, björgunarlaun til varðskipa

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.: „Hver eru heildarbjörgunarlaun varðskipa ríkisins á árunum 1979 og 1980 og hve hár hluti hefur komið í hlut eftirtalinna aðila: a) Landhelgissjóðs, b) Landhelgisgæslunnar sem útgerðaraðila, c) áhafna skipanna, d) annarra?“

Þessi fsp. er borin fram að gefnu tilefni vegna umr., sem hér hafa farið fram á yfirstandandi þingi, bæði um störf Landhelgisgæslunnar í dag og eins um framtíðarmarkmið sem þarf að stefna að í störfum hennar. Einnig hafa komið til umræðu björgunarmál landhelgisgæsluskipanna o. fl., o. fl. Fyrir þá, sem eiga eftir að starfa að þessum málum á næstu vikum og mánuðum vonandi — eins og við höfum reyndar ábendingu um á dagskrá þessa fundar, en það á að kjósa mþn. til þess að fjalla um Landhelgisgæsluna, veit ég að þessar spurningar og svör við þeim munu verða til glöggvunar.