05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3970 í B-deild Alþingistíðinda. (4037)

285. mál, húsnæðismál Náttúrugripasafnsins

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram á þskj. 583 fsp. til hæstv. menntmrh. um húsnæðismál Náttúrugripasafnsins í Reykjavík, en fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvaða áform eru uppi um úrbætur í húsnæðismálum Náttúrugripasafnsins í Reykjavík?

Fsp. er fram komin vegna þess þrönga stakks sem Náttúrugripasafninu hér í borg er búinn, en eins og flestir þm. vafalaust vita hefur safnið yfir að ráða um 100 fermetra sal og liggur alveg í augun uppi að þar er einungis hægt að sýna mjög takmarkaðan hluta þeirra ágætu sýningargripa sem þetta safn á og býr yfir. Það er í rauninni engan veginn vansalaust, hvorki fyrir ríkið né höfuðborgina, að þannig skuli vera búið að Náttúrugripasafninu hérna. Fjölmörgum litlum stöðum úti um land hefur tekist að koma upp myndarlegum náttúrugripasöfnum, en miðað við þá aðstöðu, sem Náttúrugripasafnið okkar hérna hefur, mætti helst ætla að það væri nokkurs konar hornreka. Það er fjölmörgum áhugamönnum um náttúrufræði áhyggjuefni, hversu þröngt er að þessu safni búið. Enginn vafi er á því, að íbúar höfuðborgarsvæðisins fara mjög mikils á mis, ekki hvað síst skólaæskan hér, að ekki skuli vera hér myndarlegra náttúrugripasafn eða safn með betri sýningaraðstöðu.

Í greinargerð, sem ég hef undir höndum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir: „Náttúrugripasafnið í Reykjavík var stofnað árið 1889, en það ár var Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnað beinlínis í þeim tilgangi að koma upp sem fullkomnistu náttúrugripasafni á Íslandi. Það er síðan,“ segir enn fremur í greinargerðinni, „í ársbyrjun 1947 sem það verður að samkomulagi, að ríkið tekur við rekstri safnsins og það verður þar með ríkisstofnun. Árið 1951 eru sett lög um safnið og þá hlaut það nafnið Náttúrugripasafn Íslands, en síðar í sambandi við heildarendurskoðun á löggjöf um íslenskar náttúrufræðirannsóknir voru lögin frá 1951 aukin og endurskoðuð og var nafni safnsins þá breytt í Náttúrufræðistofnun Íslands. Það er,“ segir í greinargerðinni, „haustið 1908 sem safnið fær inni í nýbyggðu safnahúsi við Hverfisgötu og þar er Náttúrugripasafnið í Reykjavík óslitið til ársins 1960“ — frá árinu 1908, en 1960 varð að rýma þetta húsnæði vegna þarfa Landsbókasafnsins. Nú er safnið á 3. hæð að Laugavegi 105 og að Hverfisgötu 116, í skrifstofuhúsnæði sem þar er.

Eins og áður segir og þarna kemur fram er sem sagt Náttúrugripasafnið í safnahúsinu við Hverfisgötu árin 1908–1960. Nú er þetta safn í um 100 fermetra sýningarsal, árið 1908, þegar safnið fær fyrst inni, hefur það sal um 140 fermetra að stærð. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að það er óviðunandi aðstaða sem Náttúrugripasafnið býr þarna við.

Fsp. er varpað fram vegna þeirrar brýnu nauðsynjar sem ber til að úrbætur verði fengnar á húsnæðismálum safnsins. Að mati fyrirspyrjanda er fyrst og fremst nauðsyn að afla til bráðabirgða aukins húsnæðis, annaðhvort með kaupum eða leigu, til þess að bæta þarna úr. En það er enginn vafi á því, að eitt af okkar brýnustu verkefnum hér er að byggja glæsilegt hús, safnhús fyrir nýtísku náttúrugripasafn. Það er skoðun mín og ég vil beina þeirri spurningu til menntmrh., hvort ekki væri æskilegt að skipa hið fyrsta nefnd til þess að annast og hefja undirbúning að hönnun og byggingu slíks húss. Það er enginn vafi á því, að starf sem slíkt tekur langan tíma. Það er vandaverk og í því, að starf sem slíkt tekur langan tíma. Það er vandaverk og í því sambandi þyrfti að leita samstarfs við Reykjavíkurborg sem vafalaust mundi láta sig þetta mál miklu varða.