05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3972 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

285. mál, húsnæðismál Náttúrugripasafnsins

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greinagóð svör. Það var ánægjulegt að heyra að það er verið að vinna að því að leysa úr bráðum húsnæðisvanda safnsins. Ég vona að það gangi vel. En það er enginn — ég vil ítreka það — það er enginn vafi á því, að myndarlegt náttúrugripasafn hér í Reykjavík er okkur íbúum höfuðborgarsvæðisins ómetanlegt bæði til kennslu og fræðslu. Slíkt safn er nauðsyn. Og það er mikil nauðsyn að safnið fái aðstöðu til þess að sýna þá fjölmörgu og ágætu gripi sem það býr yfir.

Til þess að koma upp myndarlegu safni þarf að takast samstarf milli ríkisins, Háskólans og Reykjavíkurborgar. Það er sjálfsagt rétt að nú stöndum við Íslendingar í mörgum byggingum á menningarlegu sviði. Þar má nefna byggingu Listasafns Íslands, byggingu Þjóðarbókhlöðu, byggingu útvarpshúss o. s. frv. En því verður ekki fram hjá horft, að það er verulega tímafrekur undirbúningur sem fram þarf að fara áður en hönnun getur hafist á nýtísku Náttúrugripasafni. Það er vandasamt verk. Ég vil sérstaklega fagna því sem kom fram í máli menntmrh., að hann taldi vel koma til greina að nú yrði skipuð nefnd til þess að fara að huga að þessum málum og undirbúa, hvernig best yrði að þessu staðið, og væntanlega þá að hefja viðræður bæði við Háskólann og Reykjavíkurborg. Ég vil ljúka máli mínu hér með því að hvetja hann til þess að setja af stað slíkan vinnuhóp hið fyrsta.