05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3974 í B-deild Alþingistíðinda. (4042)

391. mál, stundakennarar Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Það eru auðvitað, eins og kom fram í orðum hans, hans hugleiðingar sem hér komu fram varðandi Háskólann og ríkisstarfsmennina, en ekki það að tilefni gæfist til þess vegna minna orða, enda ætlaði ég mér ekki og mun hvorki ræða þessa deilu né Háskólann sem slíkan, stórfjölgun nemenda og fjölgun nýrra deilda. Við höfum fengið hér í dag nokkurt sýnishorn af því, hvað prófessor einnar svokallaðrar nýdeildar getur lagt af mörkum til íslenskrar menningar og menntunar, og ég tel að það sé ekki mikil ástæða til þess að auka þar við, þótt ég hins vegar sé mjög fylgjandi því, að það sé fjölgað í nýjum hagkvæmum greinum fyrir íslensku þjóðina. En þá eigum við að sjálfsögðu að vera menn til að fastráða kennara að Háskólanum sem geta lagt í þessi störf þá alúð og þá vinnu sem starfinu ber. En ég tek undir það með hæstv. ráðh., að að sjálfsögðu þurfum við alltaf að leita til fræðinga og fræðimanna, sem standa utan Háskólans, til þess að grípa inn í slíka kennslu, og það er fjarri því að ég telji ástæðu til þess að hafa á hornum mér þá menn sem stunda þarna kennslu, stundakennslu. Það má hins vegar vera að það nálgist að vera ekki eðlilegt þegar þeir hinir sömu, sem hafa megintekjur sínar og starfa annars staðar innan embættismannakerfisins, beita sínum áhrifum í þessari deilu sem stundakennarar, sem hafa af þessu megintekjur sinar, standa í við viðkomandi yfirvöld. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi komið upp í huga margra sem lásu fregnir af þessari deilu á sínum tíma, en ekki það að ég eða aðrir slíkir séum að leggja dóm á málið sem slíkt.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. menntmrh.