05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3974 í B-deild Alþingistíðinda. (4043)

295. mál, framkvæmd laga um fóstureyðingar

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni lagt fram svohljóðandi fsp.:

„Hver hefur verið framkvæmd laga um fóstureyðingar, nr. 25 frá 1975?

2. Hver var árlegur fjöldi fóstureyðinga síðustu fimm árin fyrir setningu laganna?

3. Hver hefur árlegur fjöldi fóstureyðinga verið frá setningu laganna?

4. Hvaða ástæður hafa einkum verið tilgreindar fyrir fóstureyðingu?“

Ástæðan fyrir því, að við berum fram þessa fsp., er sú, að við viljum fá samanburð á fjölda fóstureyðinga fyrir og eftir setningu laganna. Það eru margir sem hafa áhyggjur af því, að menn fari frjálslega með þau lagafyrirmæli, sem fyrir hendi eru, og þá einkum þá grein er kveður á um félagslegar aðstæður. Okkur leikur hugur á að vita hvort þessi lög hafi sannað gildi sitt eða hvort beri að endurskoða þau með tilliti til fenginnar reynslu.

Á síðustu þingum hefur legið fyrir frv. frá hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni. Ég get sagt frá því hér, að ég get ekki samþykkt það frv. óbreytt. Ég er þeirrar skoðunar, og ég hygg að hv. þm. Árni Gunnarsson sé sama sinnis, að það beri að taka tillit til félagslegra aðstæðna þegar með þessi mál er farið. En það má öllu ofgera og vissulega er ástæða til að staldra við ef ekki er farið að þeim lagafyrirmælum sem fyrir eru. Mér býður í grun að tölur um þetta komi til með að segja nokkra sögu, og því er það að við spyrjum hér.