05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (4048)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um launasjóð rithöfunda á þskj. 69, sem felur í sér að hið fyrsta verði skipuð nefnd til þess að athuga og endurskoða lög nr. 29/1975, um launasjóð rithöfunda, og reglugerð þeim lögum samkvæmt. Nefndinni hafa borist umsagnir Rithöfundasambands Íslands, Félags ísl. rithöfunda og Menntamálaráðs. Auk þess mætti á fund nefndarinnar Njörður P. Njarðvík, formaður Rithöfundasambandsins.

Í umsögn Rithöfundasambandsins, sem studd var andmælum 126 rithöfunda við till., beindust mótmæli rithöfunda ekki gegn tillgr. sjálfri, heldur gegn ákveðnu atriði sem fram kemur í grg. þáltill., en um það segir, með leyfi forseta, í umsögn Rithöfundasambandsins:

„Hér með sendum við þetta bréf undirritað af formanni sambandsins, Nirði P. Njarðvík. Því fylgja andmæli 126 rithöfunda, félaga í sambandinu, við því, að lögum um launasjóð rithöfunda verið breytt þannig, að þingkjörin nefnd úthluti úr sjóðnum, og ósk um að val á stjórn launasjóðsins verði áfram í höndum samtaka rithöfunda sjálfra.“

Og í bréfi Rithöfundasambandsins, sem sent var öllum alþm. og dags. er í des. 1980, segir svo, með leyfi forseta: „Stjórn Rithöfundasambandsins lítur á þessa þáltill. sem beint tilræði við launasjóð rithöfunda, enda reynsla fyrir því, að fylgifiskur þingkjörinnar nefndar, sem úthluti launum og styrkjum til listamanna, sé pólitískt kvótakerfi fremur en listrænt mat. Yfirgnæfandi meiri hluti félagsmanna í Rithöfundasambandi Íslands er andvígur slíkri tilhögun og því til sönnunar fylgir hér yfirlýsing 126 rithöfunda um andstöðu við þingkjörna stjórn launasjóðsins.“

Engin mótmæli komu þó fram í bréfi Rithöfundasambandsins gegn því, að endurskoðun fari fram á lögum um launasjóð rithöfunda. Eins og ég sagði hér áðan beindust mótmælin aðallega gegn því sem fram kemur í grg. þáltill. sjálfrar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þá bæri einnig að skoða þá hugmynd, hvort ekki væri farsælast, þegar öll kurl koma til grafar, að stjórn Launasjóðsins yrði skipuð af Alþingi, en samkv, núverandi skipan er það stjórn Rithöfundasambands Íslands, sem tilnefnir alla stjórnarmenn, þrjá talsins.“

Í bréfi Félags íslenskra rithöfunda kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Stjórn Félags ísl. rithöfunda vill benda á að þeir rithöfundar, sem undirrituðu mótmæli að undirlagi Njarðar P. Njarðvík, formanns Rithöfundasambands Íslands, voru ekki að mótmæla endurskoðun á lögum um launasjóð, heldur að mótmæla því sem kallað var að taka Launasjóð úr höndum rithöfunda. Við könnumst ekki við að með ákvæðum um endurskoðun laga sé stefnt að breytingu á stjórn sjóðsins.“

Og í bréfi Menntamálaráðs segir, með leyfi forseta: „Menntamálaráð lítur svo á, að hér sé um að ræða viðkvæmt deiluefni milli rithöfunda innbyrðis, og telur ekki ástæðu til að færa þær deilur inn á vettvang ráðsins. Hitt telur Menntamálaráð almennt talað eðlilegt, að öll lög um menningarmál — sem önnur lög — séu í stöðugri endurskoðun að höfðu samráði við viðkomandi málsaðila. Ljóst er því að mótmæli Rithöfundasambandsins beinast fyrst og fremst gegn ákveðnu atriði, sem fram kemur í grg., en hvergi er að finna í tillgr. sjálfri.“

Rétt er einnig að benda á að allshn. barst annað bréf frá stjórn Rithöfundasambandsins, dags. 29. jan. s. l., þar sem vísað er til þál. sem samþykkt var á Alþingi 1. maí 1972, en þar er ríkisstj. falið að undirbúa lagasetningu um það, að fjárhæð, er nemi sem næst andvirði söluskatts af bókum, renni til rithöfunda og höfunda fræðirita. Bendir Rithöfundasambandið á að mikið vanti á að við þennan vilja Alþingis, sem fram kom í nefndri þál., hafi verið staðið. Telur stjórnin að brýnasta viðfangsefni Rithöfundasambandsins sé að fá verulega hækkaða þá upphæð, sem til sjóðsins rennur, og bendir á í því sambandi að ef verulega væri aukið fjármagn til sjóðsins mundu þær deilur hjaðna sem í kringum úthlutun úr sjóðnum hafa verið, eins og það er orðað.

Eins og fram kemur í nál. mælir nefndin með samþykkt till. með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Nefndin tekur aftur á móti ekki afstöðu til þeirra ummæla sem fram koma í grg. till., að skoða beri þá hugmynd, að stjórn launasjóðsins verði skipuð af Alþingi. Brtt., sem allshn. leggur til, eru á þskj. 589. Eru þær eftirfarandi:

„1. Aftan við fyrri mgr. tillgr. bætist: Endurskoðunin skal unnin að höfðu samráði við samtök rithöfunda.

2. Síðari mgr. tillgr. orðist svo:

Nefndin skal skipuð eftir tilnefningu þingflokkanna að viðbættum einum manni skipuðum af menntmrh. án tilnefningar, og skal hann vera formaður nefndarinnar. Nefndin skal skila áliti áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Allshn. leggur til að till. verði samþykkt með þessum breytingum sem ég hér nefndi.