10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, sagði við þessar umr. að skattkerfi væri eitt og skattstigi annað. Þetta er auðvitað laukrétt. Hann sagðist vonast til þess, að áfram yrði samstaða á hinu háa Alþingi um skattkerfi. Ég er honum sammála um það. En um skattstiga hefur ekki verið samstaða og verður líklega seint.

Hæstv. fjmrh. sagði að aðalatriðið væri að heildarskattar heimilanna væru ekki hærri en samkv. eldra kerfi. Það má vera að þetta sé rétt ef litið er frá þröngum sjónarhól ríkissjóðs einum saman. Það er hvorki rétt frá sjónarhól sveitarfélaga né frá sjónarhól mikils hluta skattgreiðenda. Samkv. nýja kerfinu fá sveitarfélögin tæplega 26% af heildarskattlagningu vegna tekna barna innan 16 ára aldurs. Samkv. eldra kerfi var þetta hlutfall nálægt 40% skattheimtunnar. T.d. var hlutfall sveitarfélaga 37%, ef tekjur barna voru um 1200 þús. kr., og nálægt 50%, ef tekjurnar nálguðust 3 millj. kr. Nú er þetta hlutfall, eins og áður segir, tæplega 26%. Ríkissjóður er m.ö.o. að auka skattheimtu sína á kostnað sveitarfélaganna. Þar við bætist að sveitarfélögin treysta sér sum hver ekki til að innheimta útsvör, sem lögð eru á undir lok greiðsluársins, og hafa samþykkt að fella þau niður.

Frá sjónarhól heimilanna lítur dæmið þannig út, að heildarskattlagning stórhækkar hjá fjölskyldum með lágar tekjur og mest hjá þeim allra lægst launuðu, ekki bara í prósentum, heldur og í krónutölu. Þær fjölskyldur, sem lægstar hafa tekjurnar, greiddu samkv. eldra kerfi engin gjöld af tekjum barna. Ónýttur persónuafsláttur, barnabætur og námsfrádráttur jafnaði út það útsvar sem á tekjur barna var lagt, hvort sem um sérsköttun þeirra var að ræða eða ekki. Börn foreldra með lægri miðlungstekjur, tekjur sem fóru í 30% skattstiga, höfðu samkv. eldra kerfi greitt svipað vegna tekna barna upp að 400 þús. kr. eða þar um bil. Foreldrar með hærri tekjur, sem fóru í 50% skattstigann, hefðu greitt meira samkv. eldra kerfi. Barn, sem hafði 1200 þús. kr. tekjur á árinu 1979, sem ekki var óalgengt fyrir sumarvinnu, greiðir nú um 140 þús. kr. hvað sem tekjum og greiðslugetu foreldranna líður. En auðvitað eru það foreldrarnir sem greiða skattana, sérstaklega þegar álagning dregst eins mikið og nú gerðist. Samkv. eldra kerfi hefði lágtekjufjölskyldan greitt sáralítið eða ekki neitt í skatt vegna þessara tekna. Fjölskylda með miðlungstekjur, sem náði 30% stiganum, hefði greitt 87 þús. kr., tapar sem sagt 53 þús. kr. á breytingunni. Hátekjufjölskylda, sem komst í 50% skattstigann, hefði samkvæmt eldra kerfi greitt 115 400 kr., tapar 24 600 kr. á breytingunni eða miklu minna en lágtekjufjölskyldan. Ef barnið hefur haft háar tekjur, t.d. 3.2 millj., græðir fjölskylda með miðlungstekjur 182 þús. kr. á breytingunni frá eldra kerfi, en hátekjufjölskyldan græðir 211 þús kr.

Í stuttu máli: Sveitarfélögin tapa á breytingunni og það verulega. Lágtekjufjölskyldur, hvort sem börnin hafa haft lágar eða miðlungstekjur, stórtapa á breytingunni. Fjölskylda með miðlungstekjur tapar á breytingunni ef tekjur barnanna eru tágar, en græðir á henni því meira sem tekjur barnanna eru hærri. Hátekjufjölskyldan stórgræðir á breytingunni hvort sem tekjurnar eru háar eða lágar, en því meira sem tekjur barnanna eru hærri.

Þetta getur undir engum kringumstæðum talist réttlátt og getur ekki verið tilgangur löggjafans. Þessu verður að breyta.

Hæstv. fjmrh. sagði að til stæði að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Það er gott. Satt að segja finnst mér það vera hinu háa Alþingi og öllum stjórnmálaflokkum til háborinnar skammar að það kerfi skuli ekki hafa verið tekið upp fyrir löngu. Um langt árabil hafa allir stjórnmálaflokkar lofað lögfestingu staðgreiðslukerfis, enda sterklega með því mælt af svo til öllum umsagnaraðilum. En allir hafa þeir fram til þessa svikið þau loforð.

Hæstv. fjmrh. segir að frv. til l. um staðgreiðslukerfi verði innan tíðar lagt fyrir hið háa Alþingi, en það muni taka tvö ár eftir gildistöku laganna að koma kerfinu á. Ég trúi því ekki að það þurfi að taka svona langan tíma. Bretar tóku þetta kerfi t.d. upp á sama tíma og þeir voru að losna úr hrikalegustu hernaðarátökum veraldarsögunnar, og höfðu þeir þá vissulega um margt annað að hugsa.

M.a. vegna sjómanna, sem hafa mjög sveiflukenndar tekjur, að ekki sé talað um togarasjómenn, sem vilja fara í land, og vegna fullorðins fólks, sem er að hætta að vinna, og annarra, sem af einhverjum ástæðum lækka snögglega í tekjum, skora ég á hæstv. fjmrh. að flýta sem mest má verða lagasetningu og framkvæmd staðgreiðslukerfis skatta og hætta að hlusta á úrtölur embættismanna jafnmikið og hingað til hefur verið gert. Við hljótum að geta komið þessu kerfi á á skikkanlegum tíma eins og flestar eða allar nágrannaþjóðir okkar hafa gert.

Ég er sammála því, að einhverja skatta þurfi að leggja á tekjur barna og það verður auðvelt þegar staðgreiðslukerfið er komið á. Þangað til verður að breyta núverandi fyrirkomulagi.

Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og með ákvörðun skattstiga á síðasta vetri var tekjuskattur einstaklinga hækkaður miklum mun meira en sem nam hækkun tekna milli áranna 1978 og 1979. Álagður tekjuskattur reyndist samt 1.5 milljarði hærri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Með tilliti til þessa og með tilliti til þess, að álagningin nú kemur ekki fyrr en síðast á árinu, þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir, þeir mánuðir sem launþegum eru erfiðastir í skauti, styð ég það frv., sem hér er til umr., og legg til að þeir þættir skattkerfisins, sem að börnum snúa, verði lagfærðir fyrir álagningu næsta árs.

Þar við bætist að ég dreg í efa að álagningin, svona seint fram komin, sé lögleg. Samkvæmt lögum ber að leggja á skatta fyrir 30. júní ár hvert. Með brbl. frá 24. júlí s.l. var frestur til álagningar lengdur til 31. ágúst. Álagningin dróst og kom ekki fram fyrr en í október. Mér finnst því allt mæla með því, að það frv., sem hér er til umr. verði samþykkt.