05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (4050)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þáltill. um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum. Till. þessi er allitarleg og m. a. útfærðar og skilgreindar í átta liðum þær hugmyndir sem lagðar skyldu til grundvallar við heildarstefnumótun í áfengismálum. Flestum nm. þótti ekki rétt að móta eins nákvæmlega og í þáltill. er gert ráð fyrir hugmyndir sem lagðar eru til grundvallar við tillögugerð að stefnu hins opinbera í áfengismálum. Því hefur verið sleppt í meðferð nefndarinnar þeirri skilgreiningu sem fram kemur í tölul. 1–8 í tillgr. og talið nægilegt að tillgr. kveði eingöngu á um þau grundvallaratriði sem stefnumótunin á að byggjast á og fram koma í upphafi till. auk þess sem taldir eru upp þeir aðilar sem samráð skal haft við um stefnumótun í áfengismálum.

Fram kemur í þáltill.till. og hugmyndir varðandi þessa átta liði skuli sendar Alþingi í sérstakri skýrslu um málið. Hefði ég talið eðlilegra að nefndin hefði haft þá punkta til að starfa eftir við stefnumörkun í áfengismálum. Ég get þó eftir atvikum fallist á niðurstöðu nefndarinnar.

Nefndin fékk umsagnir um till. þessa frá eftirtöldum aðilum: Stórstúku Íslands, fjármálaráðuneytinu, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, landlækni, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Áfengisvarnaráði og Vinnuveitendasambandi Íslands og einnig frá Læknafélagi Íslands, en sú umsögn barst eftir að nefndin hafði skilað áliti.

Nefndin mælir með samþykkt till. með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj., nr. 617. Nefndin leggur til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar undirbúa tillögur að stefnu hins opinbera í áfengismálum, sem byggist á þeim grundvallaratriðum:

að draga úr heildarneyslu vínanda,

að stórauka skipulagðar rannsóknir, fræðslu og umræður um áfengismál,

að auka stuðning við áhugamannasamtök um áfengismál,

að skilgreina eðlilega meðferð áfengissjúklinga og kveða á um flokkun meðferðarstofnana,

að leggja ríkisvaldinu, sem verslar með áfengi, þær skyldur á herðar að vinna gegn ofneyslu áfengis með fyrirbyggjandi starfi, t. d. fræðslustarfsemi, svo og að liðsinna þeim er eiga við áfengisvandamál að stríða.

Tillögur um slíka heildarstefnumótun í áfengismálum verði unnar í samráði við heilbrigðisyfirvöld, Áfengisvarnaráð, samtök um áfengisvarnir og vandamál áfengisneytenda, svo sem Stórstúku Íslands, Samtök áhugamanna um áfengismál, AA-samtökin o. fl., löggæslu- og dómsmálayfirvöld, menntmrn. og fjmrn., Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Læknafélag Íslands og aðra þá aðila sem afskipti hafa af dreifingu og sölu áfengra drykkja og meðferð áfengismála og vandamála áfengissjúklinga.

Tillögur þessar og greinargerðir skal senda Alþingi í sérstakri skýrslu ásamt tillögum ríkisstj. um aðgerðir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.“

Nefndin leggur til að tillgr. orðist eins og ég hef hér gert grein fyrir.