05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (4056)

260. mál, veðurfregnir

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., hefur verið um alllanga hríð á dagskrá í hv. Alþingi. Vegna þess að ég hef orðið þess var af fram komnum aths., að þáltill. þessi hafi valdið nokkrum misskilningi, og samkv. ábendingum, sem ég hef fengið og aths., sé ég að þær aths. hafa við nokkur rök að styðjast, vil ég taka fram sem 1. flm. þessarar þáltill. að ástæða tillöguflutningsins er á engan hátt sú að ráðast að einum eða neinum eða efna til misklíðar um þetta þýðingarmikla mál, heldur að reyna að aðstoða og stuðla að því, að þeir ágætu menn, sem við Veðurstofuna starfa, fái betri vopn í hendur til þess að nýta menntun sína og fræði öðrum landsmönnum til gagns og gæfu.

Fyrsta atriðið, sem ég varð var við að hafði valdið misskilningi, var að tengingu virtist að sumra áliti vanta milli ályktunartillögunnar sjálfrar og þeirrar grg. sem fylgir till. Þeir, sem hafa bent mér á þetta, hafa nokkuð til síns máls. Þetta hefur fallið niður, en kemur að sjálfsögðu fram við lestur grg. En till., eins og hún er, var flutt orðrétt og var samþykkt á næstliðnu þingi Fiskifélags Íslands eða Fiskiþingi. Á henni var ekki önnur breyting gerð en að bæta inn setningu frá mér sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „og oftar ef sérstakrar aðvörunar er þörf.“ Annars er hún óbreytt frá því að Fiskiþing samþykkti hana.

Ég skal viðurkenna fúslega að ég rannsakaði ekki hvort það ágæta þing, hvar fulltrúar allra hagsmunaaðila sjávarútvegs koma saman, hefði gætt þess að höggva ekki að einum eða neinum. En að sjálfsögðu erum við 10 flm. úr öllum flokkum, sem stöndum að þessari till., ekki að ráðast að neinum einstaklingi eða stofnun með flutningi þessum. Við erum að lýsa vilja okkar og stefnu að ákveðnum markmiðum. Og ef einhverjum þeirra hefur þegar verið náð er það af hinu góða að sjálfsögðu.

En til þess að auka enn og bæta það sem að hefur verið stefnt- og þá náðst eins og sumir segja — bendum við á í grg. hvernig enn betur megi styrkja þær stoðir sem standa undir þessu þýðingarmikla starfi. Og þar kemur að sjálfsögðu hvergi fram að verið sé með ásakanir um að þeir, sem starfi við Veðurstofuna, noti ekki nýjustu upplýsingar. Að sjálfsögðu gera þeir það.

Við teljum margir, sem höfum stundað sjó við strendur Íslands, við strendur okkar kalda og rysjótta lands, að Veðurstofan eigi ekki kost á nógu nýjum og ferskum upplýsingum frá mjög víðáttumiklum hafsvæðum, sérstaklega hér á landgrunni Íslands. En það eru einmitt svæði á landgrunni Íslands sérstaklega sem Veðurstofan fær ekki nægar og ferskar upplýsingar frá: En þær þarf hún að fá sem fyrst, því að þar hafa flest okkar alvarlegu sjóslys orðið.

Að viðhöfðum þessum formála vil ég einnig láta það koma fram, að ég mun fúslega ljá ekki aðeins eyru heldur stuðning minn við að orðalagi sjálfrar þáltill. verði breytt í nefnd á þann veg að allir megi vel við una og að þá komi skýrt fram í því orðalagi hver sú hugsun okkar flm. er sem kemur fram í grg. og fyrst og fremst varðar það, að við viljum styðja það starf sem unnið er hjá þeirri ágætu og merku stofnun, Veðurstofu Íslands, hvernig hún geti sem best aflað sér nýjustu upplýsinga, og að láta kanna með hvaða hætti veðurfregnum verði best hagað og þá að sjálfsögðu í samráði við þá aðila sem við flm. nefnum í grg. Enda viljum við — og það kemur fram hjá okkur — leggja nokkrar skyldur á þá og álag til þess að standa að því að Veðurstofan geti alltaf fengið nýjustu og bestu upplýsingar er hún þarf á að halda, og reyndar á það að vera verk sem gengur fyrir sig reglulega alla daga árið um kring.

Ég vil benda á að meðal flm. að þessari till. eru nokkrir þm. sem hafa staðið að öðrum þáltill. Á þau mál hafa fleiri þm. bent. Það eru mál sem fjalla um umbætur og aukna nýtingu strandstöðva Pósts og síma. Það hefur komið til ný þjónusta frá Veðurstofu Íslands sem allir kunna vel að meta. Sú þjónusta kostar vissulega mikið fé, en ég vona að ekki verði séð eftir þeim fjármunum, a. m. k. ekki á sama hátt og séð hefur verið eftir þeim fjármunum sem fara í að koma fréttum til íslenskra sjómanna. Ég á hér að sjálfsögðu við þá þjónustu, að Veðurstofan lætur lesa að hluta veðurspá til sjófarenda frá strandstöðvum Pósts og síma.

Í þeirri grg., sem fylgir með þáltill., er í nokkrum inngangi lýst hve stór og ríkur þáttur í öllu okkar starfi veðurfregnirnar eru og jafnframt að þær tengjast beint atvinnuhagsmunum fjölmennra stétta í þjóðfélaginu og má reyndar segja þjóðarinnar allrar. Við bendum í grg. á nokkuð af því, sem nýtt er til þess að koma upplýsingum til veðurfræðinga okkar, og bendum svo að þessum inngangi loknum á þær stóru upplýsingaeyður sem eru á landgrunni Íslands og næsta nágrenni þess. En þessar upplýsingaeyður eru vegna þess að athuganir vantar frá þessum svæðum og nágrenni þeirra. Um þetta eru allir menn, sem til þessa máls þekkja, sammála að ég hygg.

Við höldum því fram, og því hefur verið haldið fram í mín eyru a. m. k., að það séu nægilega margar veðurathugunarstöðvar hér á landi og allt í kringum okkur. Í kringum Norður-Atlantshafið og þótt víðar sé farið eru athugunarstöðvar og veðurstofur, sem senda mjög reglubundið út sínar veðurspár, sem að sjálfsögðu er tekið á móti hér og unnið úr ef nýtilegt er. Öll okkar stærri skip senda reglulega veðurlýsingar til Veðurstofunnar. En það er staðreynd að þessar eyður eru til og þessar eyður þarf að fylla með tiltækum ráðum. Þau ráð eru til. Eftir að veðurskipið Alpha var tekið úr notkun — það var staðsett suðvestur af Reykjanesi um mjög langt árabil, en var tekið af svæðinu vegna mikils rekstrarkostnaðar — var í stað þess lagt þar út bauju sem var búin sjálfvirkum sendi. Þessi bauja lá „fyrir föstu“ eins og sagt er, hún lá fyrir akkeri, og það var mjög erfitt og dýrt að halda henni þar, halda bauju fastri á sama stað á þessu mikla dýpi úti í reginhafi. Norðmenn, sem áttu þessa bauju og stóðu undir kostnaði af þessum rekstri með okkur, telja sig ekki hafa efni á að standa undir þessu öllu lengur.

Þeir fagmenn, sem vit hafa á, telja að með tilkomu gervihnatta og nýrri staðsetningartækni séu rekbaujur það sem koma skuli á þessu sviði. Slíkar baujur eru settar á rek á ákveðnum stað og látnar fylgja veðri, vindi og straumum. Hinn sjálfvirki búnaður baujunnar sendir út veðurfregnir sínar sem fjarskiptaþjónusta Veðurstofunnar tekur við um gervihnött. Að sjálfsögðu fylgir þessu nokkur stofn- og rekstrarkostnaður og til þess að þetta sé framkvæmanlegt þarf náið samstarf við Landhelgisgæsluna sem ég persónulega tel hinn sjálfsagða og eðlilega aðila til þess að sjá um þá hlið málsins, að setja baujurnar til reks og taka þær upp þegar þær þjóna ekki hagnýtum tilgangi lengur.

Á því Fiskiþingi, sem ég vitnaði til í byrjun míns máls, því sama þingi og samþykkti þá ályktunartillögu sem við höfum hér lagt fram, var m. a. bent á aðra leið. En til þess að hún komi til framkvæmda þarf að ná samstöðu meðal allra skipstjórnarmanna á fiskiskipum hér við land um að senda veðurlýsingu, t. d. vindátt og vindstyrk, jafnhliða tilkynningarskyldu. Eins og nafnið ber með sér er skylt að tilkynna staðsetningu skipa á ákveðnum tímum sólarhrings sé það utan hafnar, og eru viðurlög við ef ekki er framfylgt. Því miður hefur nokkuð vantað á skyldurækni skipstjórnarmanna í þessum efnum. Hafin hefur verið mikil herferð meðal skipstjórnarmanna fyrir forgöngu Slysavarnafélags Íslands og meðal hagsmunaaðila innan flotans, sem er m. a. fólgin í því að skýra fyrir þeim þýðingu þessa fyrir eigið öryggi og annarra. Sömu aðferð á að beita varðandi sendingu veðurfregna, komist regla þessi á, svo ekki þurfi að koma til lögboðinnar skyldu með tilheyrandi sektarákvæðum. En að sjálfsögðu er sú leið til ef þarf og vel hugsanleg með hliðsjón af öryggi mannslífa og hinna efnalegu verðmæta.

Það verður líka að komast á gott samstarf milli Veðurstofu og stjórnenda og starfsmanna Tilkynningarskyldunnar varðandi framkvæmd þessa máls svo að veðurfræðingar okkar fái þessar upplýsingar sem greiðlegast. Úrvinnsla þessara upplýsinga þarf að hefjast strax ef eitthvað bendir til afbrigða frá fyrri spá. Það er að sjálfsögðu gert þegar á Veðurstofunni, en sjálfsagt má búa hana betri tækjum, betri tæknibúnaði til þess að enn fyrr megi vera á ferðinni með spár þegar slíkar nýjar upplýsingar koma frá flotanum sjálfum eða einstökum skipum flotans sem eru á landgrunninu. Allir Íslendingar þekkja það auðvitað, af afspurn a. m. k., hvernig vindhraði með sjó að sama skapi getur skrúfast upp í manndrápsveður á mjög litlu staðbundnu svæði á skömmum tíma og valdið bæði mannskaða og miklu eignatjóni. Ég er ekki með þessu að segja að ein eða nein stofnun eða fræðimenn hennar geti nokkurn tíma komið í veg fyrir slíkt. Hins vegar eigum við þessi fræði til og ágæta fræðimenn sem að þessu starfa, og það er mögulegt, ef þeir fá, eins og ég sagði áðan, þau vopn í hendur, að þeir geti dregið úr hugsanlegu tjóni, bæði mann- og eignatjóni.

Í grg. bendum við jafnframt á veðurmyndir frá gervihnöttum. Veðurstofa Íslands fær slíkar myndir í gegnum móttakara á Keflavíkurflugvelli. Það er að sjálfsögðu ósk starfsmanna Veðurstofu að þeir fái sjálfir eigin móttakara til þess að geta tekið á móti slíkum myndum, en notkun gervihnatta og ljósmynda, sem þaðan eru teknar, ásamt beinni sendingu frá Veðurstofu til skipa, sem eru búin sérstökum móttökubúnaði til að taka við veðurkortum, færist æ meir í vöxt. Og ég hygg að flest hinna stærri, nýrri skipa okkar séu búin slíkum búnaði í dag.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég vitna til grg. ef hv. þm. þykir ekki till. nægilega skýrð þegar. En ég vona, þrátt fyrir það að nokkurs misskilnings hafi gætt, eins og ég hef þegar tekið fram og skýrt, hjá hv. þm. vegna þess orðalags sem notað var í byrjun þessa máls, sem sagt tillögugreinarinnar sjálfrar, að það þurfi ekki að koma í veg fyrir að till. nái efnislega fram fyrir lok þessa þings. Ég er viss um að ef af því verður, þá verður því fagnað, ekki aðeins meðal veðurfræðinga sjálfra, heldur fyrst og fremst meðal þeirra sem eiga að njóta þess afraksturs sem hlýtur að verða og er þegar af störfum þeirra og annarra sem vinna að upplýsingaöflun til þessara fræðimanna okkar.