05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3990 í B-deild Alþingistíðinda. (4065)

280. mál, stóriðjumál

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í byrjun þessa þings var lögð fram till. til þál. um aukningu orkufreks iðnaðar sem var 8. mál þingsins. Voru flm. allir þm. Alþfl. Einnig var lögð fram þáltill. 19 sjálfstæðismanna um stefnumótun í stóriðjumálum sem var 31. mál þingsins. Till. þessar voru mjög áþekkar að efni til. Allshn. hefur fjallað um báðar þessar till. og fengið umsagnir Náttúruverndarráðs, Félags ísl. iðnrekenda og iðnrn. Einnig fékk hún til fundar við sig Pál Flygenring og Finnboga Jónsson frá iðnrn.

Allshn. hefur því haft báðar þær till., sem ég hér nefndi, til meðferðar síðan snemma í vetur. Meiri hl. allshn. hefur í samráði við flm. beggja till. komist að samkomulagi um nýja till. Kemur þessi till. í stað þeirra tveggja sem ég nefndi og verið hafa til meðferðar í allshn. Það er því álit meiri hl., að ekki sé nauðsynlegt að þessi nýja till., sem meiri hl. hefur lagt fram og er á þskj. 572, gangi aftur til nefndar. Till. er að öllu leyti efnislega samhljóða þeim tveim till. sem allshn. hefur ítarlega rætt um og lengi haft til meðferðar, og er því ekki þörf á því að vísa till. á nýjan leik til nefndar.

Eftir umfjöllun í allshn. leggur því meiri hl. nefndarinnar, sem í eru auk mín hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Halldór Blöndal og Steinþór Gestsson, fram nýja till. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd sjö þingmanna til að fjalla um aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár til að nýta í ríkari mæli en nú er gert hinar miklu óbeisluðu orkulindir vatnsfalla og jarðhita, bæta lífskjör og auka trausta atvinnu, framleiðslu og útflutning þjóðarinnar.

Skal nefndin kosin hlutfallskosningu á Alþingi að loknum hverjum alþingiskosningum. Nefndin kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Verkefni nefndarinnar eru:

1. Að kanna hagkvæmni framleiðslugreina, sem til álita koma á sviði orkufreks iðnaðar, með tilliti til orkuverðs, flutningskostnaðar, fjölda atvinnutækifæra og markaðsmöguleika.

2. Að kanna hugsanlega möguleika á samvinnu við erlenda aðila, m. a. á sviði tækni og markaðsmála.

3. Að gera tillögur um stóriðjuframkvæmdir sem hagkvæmt þykir að stofna til. Skal þar kveða á um eignaraðild fyrirtækja, fjármögnun, orkuöflun og orkuverð, önnur rekstrarskilyrði, — gerð, stærð og staðsetningu iðjuvera.

Nefndin skal hafa náið samstarf við yfirvöld orkumála og umhverfisverndar. Heimilt er nefndinni að leita samstarfs við hvern þann aðila sem hefur sérþekkingu á málum er varða störf hennar. Opinberum aðilum er skylt að veita nefndinni hverjar þær upplýsingar sem hún óskar.

Nefndin skal skila Alþingi og ríkisstj. skýrslum um störf sín eftir því sem þeim miðar áfram.

Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þannig hljóðar till. Meiri hl. allshn. leggur til að þessi till. verði samþ. Og ég vil ítreka að meiri hl. telur ekki ástæðu til að þessi till., eins og hún er hér lögð fram, fari aftur til nefndar, enda hefur afstaða verið tekin til hennar eins og hún liggur hér fyrir. Nm. fengu þessa till. í hendur 10. mars s. l. Hún kemur í stað tveggja till. um orkufrekan iðnað, sem ég nefndi áðan, og var hún síðan afgreidd úr nefnd 31. mars. Kom þar fram að minni hl. allshn. mundi skila séráliti um málið. Verður því að líta á það sem fullnaðarafgreiðslu þessa máls af hálfu nefndarinnar.