05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3991 í B-deild Alþingistíðinda. (4066)

280. mál, stóriðjumál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm. stendur allshn. Sþ. ekki öll að flutningi þessa máls. Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að till. fái þinglega meðferð og verði vísað til nefndar. Ég mun gangast fyrir því, að töf þurfi ekki að verða á afgreiðslu málsins þrátt fyrir það, enda þarf nú tvær umr. um þetta mál hvort sem er.

Þessi till. kom fram með nokkuð óvenjulegum hætti, þetta er sem sagt samansoðin till. upp úr tveimur hjá allshn. og þetta er sjálfstæð till. þó hún eigi þessa foreldra. Ég hafði samráð við skrifstofustjóra Alþingis og ég kaus eftir hans leiðbeiningum að fara þá leið að óska eftir að málið færi til nefndar og farið væri með hana eins og venjulega till., fremur en að fara að flytja við hana brtt. við þessa umr., sem einnig hefði getað komið til greina.

Ég geri ráð fyrir að meiri hl. allshn. þurfi ekki að vefja þetta lengi með sér, og það þurfum við ekki að gera heldur í minni hl., en það er þinglegra að láta till. fara til nefndar á milli umr. og þess vegna förum við þessa leið.

Ég mun á þessu stigi ekki ræða till. efnislega, heldur ætla ég að gera það við seinni umr. málsins.