05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (4067)

280. mál, stóriðjumál

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér kemur nokkuð á óvart sú ræða, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. flutti hér, og sú till., sem hann bar hér upp um málsmeðferð. Ég mun þess vegna hér og nú eingöngu takmarka mig við meðferð málsins, en ekki fjalla efnislega um till., vegna þess að ég reikna með að það gefist færi á því síðar.

Hv. 10. landsk. þm. hefur gert grein fyrir því í sinni frumræðu hvernig þessi till. er til komin, en hún á rætur að rekja til þess, að á öndverðu þessu þingi voru fluttar tvær till. um stóriðjumál, till. frá þm. Alþfl. og till. frá þm. Sjálfstfl. Þessum till. var báðum vísað til allshn. Sþ. og fengu þær þar mjög ítarlega meðferð.

Ég er hér með fundagerðabók þessarar hv. nefndar og sé þar að málið hefur verið tekið æðioft fyrir og rætt æðioft í nefndinni. Fyrst er till. Alþfl. tekin fyrir 11. nóv. 1980, á öðrum fundi nefndarinnar, og þá óskað umsagna ýmissa aðila. Næst er þessi till. Alþfl. aftur tekin fyrir á þriðja fundi, 18. nóv., en þá mættu ráðuneytisstjóri iðnrn. og fulltrúi í iðnrn. til viðræðu við nefndina um þetta mál, og þá var jafnframt lögð fram umsögn iðnrn. Á sjötta fundi allshn., 3. febr. 1981, var málið enn tekið fyrir og þá lá fyrir að allar umbeðnar umsagnir voru fram komnar. Á sjöunda fundi nefndarinnar, 10. febr. er tekin fyrir till. þm. Sjálfstfl. og þar samþykkt að sameina umr. um þessar tvær till. Á níunda fundi allshn., 10. mars 1981, eru síðan þessar till. ræddar báðar og þá leggur formaður nefndarinnar fram brtt. sem hafði verið rædd af okkur sem skipum meiri hl. Var þá málinu frestað. Viku seinna átti að taka málið fyrir, en þá var því frestað samkvæmt beiðni formanns þingfl. Framsfl. sem óskaði eftir að málið yrði ekki tekið fyrir þá. Það var svo tekið fyrir til endanlegrar ákvörðunar 31. mars, á 11. fundi allshn., og þá bókað svohljóðandi í fundagerðabók, með leyfiforseta:

„8. mál og 31. mál, þáltill. um aukningu orkufreks iðnaðar og stefnumótun í stóriðjumálum. Lögð fram að nýju brtt. formanns n. frá 10. mars s. l. Meiri hl. n., Jóhanna Sigurðardóttir, Halldór Blöndal, Birgir Ísl. Gunnarsson og Steinþór Gestsson, mun flytja þá till. og komi hún í stað hinna till. tveggja. Minni hl. n., Páll Pétursson, Guðmundur G. Þórarinsson og Guðrún Helgadóttir, mun flytja till. um að vísa málinu til ríkisstj. Málið er þar með afgreitt úr nefndinni.“

Þetta er bókað á þennan hátt í fundagerðabók allshn. Sþ. Till. var síðan lögð fram, en hefur ekki komið á dagskrá þó að liðinn sé rúmur mánuður síðan till. var lögð fram. Að vísu hafa páskar komið hér inn í. Nú er till. sett þannig á dagskrá að það er gert ráð fyrir að fram fari um hana tvær umr. Það kom mér einnig nokkuð á óvart vegna þess að það var ekki gert ráð fyrir því, þegar upphaflegu till. voru á dagskrá hér, mjög svipaðs efnis, fyrr í vetur, að um þær þyrfti tvær umr. En það er að sjálfsögðu hæstv. forseta að úrskurða það og hann hefur tjáð mér að það sé vegna þess að þessi till. hafi kostnað í för með sér og þess vegna sé eðlilegt að um hana fari fram tvær umr. En að sjálfsögðu hefði það sama átt að gilda um hinar till. tvær sem voru efnislega alveg samhljóða.

Ég vil láta þá einlægu ósk í ljós, að þessi sérkennilega málsmeðferð af hálfu stjórnarsinna sé ekki til þess að tefja þetta mál eða drepa því á dreif. Sannleikurinn er sá, að það er full alvara á bak við það hjá okkur stjórnarandstæðingum, a. m. k. okkur í Sjálfstfl. og ég reikna með af viðtölum við Alþfl.- menn að sama sé hjá þeim, — það er full alvara hjá okkur að láta reyna á þessa till. hér á hv. þingi, láta reyna á hvort hæstv. ríkisstj. og hv. þm. stjórnarliðsins vilja taka upp samvinnu við stjórnarandstöðuna um þennan mikilvæga málaflokk, í þessu formi sem hér er lagt til eða þá í einhverju öðru formi sem þá hefur ekki enn komið fram. Og ég skil orð hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hann mælti hér áðan, þannig, að hann telji að ekki þurfi að verða töf á því hjá nefndinni að afgreiða málið. Ég segi þetta vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram langan lista yfir mál sem hún óskar eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna um að afgreidd verði hér frá Alþingi áður en því lýkur eftir rúmlega tvær og hálfa viku. En hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðar verða þá að sjálfsögðu að taka tillit til óska stjórnarandstöðu um það, hvaða mál hún vilji fá fram á þessu þingi. Ella er hætt við að um þingslit og um afgreiðslu mála hér verði það stríð, að þingslit geti ekki farið fram á þeim tíma sem stefnt er að, eða þá að hæstv. ríkisstj. nái ekki þeim málum fram sem hún stefnir að. Þetta vil ég segja af fullri alvöru því mér finnst margt benda til þess, að hér séu hafðir uppi tilburðir til að tefja afgreiðslu þessa máls.

Ég hef takmarkað ræðu mína hér eingöngu við málsmeðferð. Eins og ég hef rakið hefur þetta mál fengið mjög ítarlega meðferð í nefnd nú þegar og það er ekki fordæmalaust að svona sé að farið þegar um er að ræða skyldar þáltill., að þeim sé steypt saman í eina till. og að þingheimur sé sammála um að þær séu afgreiddar án þess að fara aftur til nefndar. Það hef ég kannað og m. a. sérstaklega hjá skrifstofustjóra þingsins.

Þessar báðar till. voru ræddar á sex fundum nefndarinnar mjög ítarlega. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess, að þær fari aftur til nefndar, og mun greiða atkvæði gegn því. Ég skil hins vegar orð hv. 1. þm. Norðurl. v. á þann veg, að þetta sé meira spurning í hans huga um vinnubrögð á þessu stigi frekar en að tefja málið. Ég vonast til þess, að skilningur minn á því sé réttur.