05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3995 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

299. mál, efling almannavarna

Sigurgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þarflegu máli. Ég vil ræða þessa till. nokkuð sem sveitarstjórnarmaður og vil lýsa mjög miklum stuðningi mínum við það meginefni sem fram kemur hjá tillögumönnum.

Við sveitarstjórnarmenn höfum kannske verið fulllítið á verði um þessi mál á liðnum árum. Við, sem erum búnir að vera lengst í þessum störfum, þekkjum sögu Almannavarna allt frá því að þær voru kynntar okkur í byrjun, þá aðallega í formi stríðsvarna, en minni áhersla lögð á náttúruhamfaravarnir og alls konar slys sem orðið gætu hér á landi án þess að þar kæmi til erlend íhlutun. Ég held að almenningur hafi lagt rangan skilning á orðið almannavarnir í byrjun og tengt það eingöngu stríðsótta, en sem betur fer hefur sá skilningur eða skoðun fólks verulega breyst á seinni árum.

Mér líst vel á hugmyndina um að Viðlagatrygging gerist kostnaðaraðili að þjálfun almannavarnasveita. Það er geysilega mikið lagt í þjálfun hvers kyns björgunarsveita og mikill kostnaður því samfara. Sveitarfélög hafa almennt ekki lagt mjög mikið fé til almannavarna enn sem komið er, en náttúruhamfarir undanfarinna ára hafa sýnt okkur fram á að þarna er svið sem við bæði hér á hv. Alþingi og í sveitarstjórnum verðum að taka til alvarlegrar íhugunar. Veðrið 17. febr. s. l. sannfærði okkur sannarlega um að þrátt fyrir það að við höfum talið að við byggjum ekki hér í fárviðrabelti, þá geta orðið hér slík veður að með eindæmum þykir.

Ég stóð hér upp til að lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. og vonast til að hún fái hraða meðferð. Hér er hreyft miklu og þörfu máli. Að vísu þarf það góðrar skoðunar við, en ég lýsi fullum stuðningi mínum við þessa þáltill.