06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3997 í B-deild Alþingistíðinda. (4084)

4. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á almennum hegningarlögum, 4. mál, sem lagt var fram strax í upphafi þings á s. l. hausti.

Þetta frv. felur í sér nokkrar breytingar á reglum um sakarfyrningu. Í fyrsta lagi að reglur um sakarfyrningu taki til allra brota, hvort sem þau lúta almennum hegningarlögum eða öðrum refsilögum. Þá er lagt til að öll brot séu háð fyrningu nema þau er ævilangt fangelsi liggur við. Í frv. eru tillögur um nýja fyrningarfresti og breyttan grundvöll þeirra. Ákvæði eru um rof fyrningarfrests. Ákvæði eru um að sakarfyrningarreglur taki nú ekki beinlínis til annarra viðurlaga við broti en refsingar. Nokkur fleiri atriði, er varða sakarfyrningu, eru einnig í þessu frv.

Þá er í öðru lagi breyting á reglum hegningarlaga um refsingu fyrir líkamsárásir og líkamsmeiðingar. Frv. hefur þá breytingu í för með sér, að lagt er til að efni 218. gr. almennra hegningarlaga verði greint í tvær mgr. með mismunandi refsimörkum. 218. gr. tekur yfir allvíðtækt efnissvið eins og nú er og þykir eðlilegra, segir í grg., að hluta það niður.

Refsimörkum er breytt í frv. frá því sem nú er þannig að lagt er til að líkamsárás samkv. 217. gr. varði því aðeins fangelsi að háttsemin sé sérstaklega stórfelld, þ. á m. vegna þess háska sem af henni gat stafað.

Þá er lagt til að breytt sé saksóknarháttum varðandi 217. gr., nánast tæknilegt atriði, og að lokum er lagt til að ný grein, 218. gr. a, verði lögfest, en hún mælir fyrir um ítrekun brota er fela í sér líkamsárásir eða líkamsmeiðingar svo og reglur er varða samþykki til slíkra brota og enn fremur sérregla um heimild til refsilækkunar eða niðurfellingar refsingar þegar líkamsárás er unnin í áflogum eða átökum milli þess, sem fremur hana, og hins, sem misgert er við.

Allshn. leggur til að þetta frv. verði samþykkt með tveimur breytingum, sem hún flytur á þskj. 721. Þær eru: 1) Í meðförum Nd. á þessu frv. hafði láðst að breyta krónutölu í 8. gr., en þar er, eins og frv. nú hljóðar, kveðið á um 500 þús. kr. sekt við ákveðnu atferli. Það mundi þá vera eftir gildistöku nýkróna 50 millj. gkr., en á auðvitað að vera 5 þús. kr. sekt þannig að miðað sé við hina nýju mynt. Allshn. leggur til að þessari upphæð verði breytt.

2) 13. gr. frv. hljóðar svo nú: „Lög þessi öðlast gildi 1. maí 1981.“ Af eðlilegum ástæðum er nauðsynlegt að breyta þessu og allshn. leggur til að 13. gr. orðist sem hér segir: „Lög þessi öðlast gildi 1. okt. 1981.“

Með þessum breytingum, herra forseti, leggur allshn. til að frv. verði samþykkt.