06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4002 í B-deild Alþingistíðinda. (4087)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli vera fram komið. Það hefði að vísu verið æskilegra að fá það fyrr á þessu þingi með tilliti til þess, að óskað er eftir og þörf á að fá frv. afgreitt á þessu þingi. Við sjálfstæðismenn munum ekki gera neitt til að hindra framgang þessa máls, en leitast við að stuðla að því, að það fái sem vandaðasta meðferð í þeirri n. sem hæstv. iðnrh. hefur lagt til að frv. verði vísað til, þ. e. iðnn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða um sögu saltvinnslu hér á landi. Hæstv. ráðh. hefur komið inn á þá sögu og m. a. ekki látið liggja eftir hlut Vestfirðinga í þessu efni, sem munu vera brautryðjendur í saltvinnslu hér á landi. En ég vildi við þessa 1. umr. leyfa mér að víkja að nokkrum atriðum í frv.

Það atriði er náttúrlega ekki þýðingarminnst með hverjum hætti aflað verði fjármagns eða hlutafjár fyrir Sjóefnavinnsluna hf., sem gert er ráð fyrir að verði stofnuð. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að ríkisstj. hafi forustu um stofnun þessa félags og það er ekki óeðlilegt. Það er talað um að ef ekki takist að afla meiri hluta hlutafjár á almennum markaði innanlands eigi ríkisstj. að leggja til meiri hluta hlutafjár í félaginu. Mér finnst þetta ekki óeðlilegt ákvæði í sjálfu sér, en mér finnst varða miklu máli í þessu efni hver er stefna ríkisstj. Er það stefna ríkisstj. að það verði hægt að afla meiri hluta hlutafjár á almennum markaði og er þá gert ráð fyrir að það verði almennt hlutafjárútboð? Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi upplýsingar um þetta. Mér sýnist kannske ekki örgrannt um að ákvæði 7. gr. frv. geri ráð fyrir að það verði ekki ýkjamargir aðilar að þessu félagi, Sjóefnavinnslunni. Það kann að vera rétt að hafa þetta ákvæði í 7. gr. til vonar og vara. En ég legg áherslu á að það sé möguleiki á að það geti verið sem almennust þátttaka í þessu félagi. Það mun verða öflugast með þeim hætti. Að sjálfsögðu skaðar ekki að af þeim sökum komist ríkissjóður af með að leggja minna fjármagn fram til félagsins.

Þá er það annað atriði sem ég vildi aðeins víkja að við þessa umr., og það er ákvæði 4. gr. Það er að sjálfsögðu alveg nauðsynlegt að hafa f lögunum þá heimild sem þar er gert ráð fyrir, þ. e. að Sjóefnavinnslan hf. hafi heimild til að reisa og reka raforkuver. Það þarf að taka það beinlínis fram vegna ákvæða orkulaga. En hér er gert ráð fyrir að þessi heimild sé bundin við 5 mw. afl. Mér kemur nú til hugar hvort ástæða sé til að binda þessa heimild við þau stærðarmörk og hvort það sé ekki hyggilegra að hafa þau rýmri. Ég get ekki séð að það geti neitt skaðað þó að fyrirtækið virkjaði stærra en 5 mw. ef það væri hagkvæmt. Það er, eins og hæstv. ráðh. kom líka inn á, alltaf möguleiki á því að selja þá orku sem er umfram þarfir fyrirtækisins sjálfs.

Það voru einkum þessi atriði sem mér lék forvitni á að fá frekari upplýsingar um. Þess vegna hef ég lagt þessar spurningar fyrir hæstv. ráðh.