06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4004 í B-deild Alþingistíðinda. (4089)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir, sem hér hafa komið fram hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar í sambandi við þetta mál, og átti raunar ekki von á öðru en frá þeim kæmi góður stuðningur við þetta efni. Það var raunar kynnt sem svar við fsp. í Sþ. á síðasta vetri, hvert stefndi í þessum efnum og hvað rn. hygðist fyrir, og í framhaldi af því var lögð fram skýrsla eða álit hinnar svokölluðu saltvinnslunefndar. Með henni gafst hv. þm. kostur á að kynna sér nokkuð forsendur og efni þess frv. sem nú er fram komið og hér er til umr.

Ég skil vel að mönnum finnist að frv. hefði mátt koma fyrr fram hér á þinginu, en fyrir því liggja gildar ástæður að undirbúningi málsins var ekki talið lokið með fullnægjandi hætti fyrr en þetta.

Ég vil víkja örfáum orðum að þeim fsp. sem fram voru bornar af hv. 4. þm. Vestf.

Það var í fyrsta lagi spurt um hlutafé í fyrirtækinu. Hann spurði hver væri stefna ríkisstj. varðandi hlutafjáröflun og hvort gert væri ráð fyrir almennu hlutafjárútboði. Ég geri ráð fyrir að það reyni á almennt hlutafjárútboð, og ég teldi mjög æskilegt að það kæmu margir til að leggja fjármagn í þetta fyrirtæki. Þess vegna er ekki bundin meirihlutaaðild ríkisins ef svo kynni að fara að áhugi væri slíkur, m. a. hjá sveitarfélögum á þessu svæði svo og einstaklingum, að nægilegt hlutafé safnaðist til þess að ríkið þyrfti ekki að leggja fram meiri hluta hlutafjár. Hins vegar er ýmislegt sem bendir til þess, að á meiri hluta ríkisins gæti reynt í þessu fyrirtæki, og því voru heimildir varðandi fjármögnun af hálfu ríkisins og ábyrgðir hafðar það rúmar að málið þyrfti ekki að stranda af þeim sökum.

Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar Undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi var stofnað á árinu 1977 komu vissulega margir einstaklingar og sveitarfélög til liðs við þá félagsstofnun, mig minnir hátt í 500 aðilar, og var það sannarlega ánægjuefni. Í lögum um þetta Undirbúningsfélag var gert ráð fyrir að ríkið hefði 40% eignaraðild, 40% hlut, en aðrir aðilar 60%. Þannig var lagt upp í upphafi, en í reynd hefur ríkið nú meiri hluta í þessu Undirbúningsfélagi vegna þess að framlögum úr ríkissjóði, sem nauðsynleg reyndust til að standa undir tilraunavinnslunni, var breytt í hlutafé. Ég hef ekki nákvæma prósentu í þeim efnum, en það munu vera nærri 60%, að ég hygg, sem ríkissjóður er skráður fyrir í Undirbúningsfélaginu.

Ég treysti því, að þetta verði ekki ágreiningsefni. Meginatriðið er að tryggja þessu fyrirtæki gott brautargengi og góða eiginfjárstöðu, og í því sambandi minni ég á að æskilegt er, svo að ekki sé meira sagt, að þær skuldir, sem Undirbúningsfélag saltverksmiðju hefur orðið að taka á sig, verði yfirteknar, en ekki látnar ganga inn í rekstrargrunn þessa nýja fyrirtækis.

Varðandi fsp. um ákvæði 4. gr. um raforkuframleiðslu og nýtingu á gufuafli til raforkuframleiðslu og takmörk miðuð við 5 mw. er þess að geta, að eðlilegt þótti að hafa þarna ákveðin mörk. Ég tel mig muna það rétt, að til eigin nota þurfi saltverksmiðjan 1.2 mw. í afli. Þannig yrði þó nokkuð afgangs yrði sú heimild nýtt sem hér er gert ráð fyrir. Það er alveg rétt, að væntanlega er hægt að finna markað fyrir slíka framleiðslu, en það er þó mjög undir því komið hvernig aðstæður eru í raforkukerfi landsmanna almennt. Þau fyrirtæki, sem þar standa fyrir meginraforkuöflun, vilja líka, sem eðlilegt er, tryggja að eðlilegur samrekstur komist á ef nýir framleiðendur koma inn á kerfið eða ætla sér að selja raforku inn á kerfið. Því er gert ráð fyrir að um slíkt verði samstarf við þá aðila og gengið frá málum áður en til framleiðslu inn á landskerfið kæmi. — Þetta voru þær fsp. sem að var vikið.

Hv. 2. þm. Reykn. nefndi það, sem ég raunar kom að í framsöguræðu minni, að æskilegt hefði verið að hafa þær skuldbindingar, sem þörf er á fyrir ríkið, í lánsfjáráætlun sem Alþingi nú hefur afgreitt. Um það varð samstaða innan ríkisstj. á s. l. hausti að taka á þessu máli jafnhliða lögfestingu eða öflun heimilda fyrir slíkt fyrirtæki hér á hv. Alþingi fremur en vera með einhvern almennan lið til þess að mæta áætluðum þörfum vegna þeirra iðnfyrirtækja sem í undirbúningi eru. Ég vænti þess, að það geti komið til fjármögnun að hluta til án þess að á erlendar lántökur reyni. Sparifjármyndun í landinu er vaxandi, sem betur fer, og því ætti að vera hugsanlegt að afla þannig bráðabirgðalána innanlands til a. m. k. hluta þess sem þarf til að koma upp þessum 8 þús. tonna byrjunaráfanga.