06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4005 í B-deild Alþingistíðinda. (4090)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör þau sem hann gaf við spurningum mínum. Hann lýsti þeirri stefnu, að það mundi verða gert allt — ég skildi hann svo — sem hægt væri til þess að hlutafjársöfnun til þessa fyrirtækis yrði sem almennust. Ég tek undir það sem hann sagði í því efni, að um það ætti ekki að verða ágreiningur.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh, sagði að skuldir þær, sem Undirbúningsfélagið stæði núna í, ættu ekki að leggjast á hið nýja félag, held ég að hann hafi orðað það, eða rekstur þess, heldur verði yfirteknar. Ég skildi það þannig, að ríkið mundi yfirtaka þær — eða hvaða aðili mundi yfirtaka þær? Þetta var það eina sem mér fannst óljóst í því sem hæstv. ráðh. sagði.