06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (4097)

314. mál, stálbræðsla

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Allt er þegar þrennt er, stendur einhvers staðar. Ég mæli hér fyrir þriðja málinu sem snertir iðnaðaruppbyggingu í landinu, frv. til laga um stálbræðslu, en í 1. gr. þess frv. segir:

Ríkisstj. er heimilt að gerast eignaraðili að Stálfélaginu hf. og leggja fram í því skyni allt að 40% af hlutafé þess.“

Stálfélagið hf. var stofnað árið 1970 og hefur félagið beitt sér fyrir að hér á landi rísi stálbræðsla til framleiðslu á steypustyrktarstáli úr brotajárni. Ég ætla ekki að rekja hér sögu Stálfélagsins seinustu tíu árin, en sú saga er þó vissulega alllærdómsrík og þá einnig þáttur stjórnvalda í því máli.

Skoðanir manna á því, hve mikið væri fáanlegt af nýtanlegu brotajárni á Íslandi, hafa verið nokkuð mismunandi. Því ákvað iðnrn. í sept. 1979 að fá Almennu verkfræðistofuna hf. til að gera ítarlega könnun á innlendum brotajárnsmarkaði.

Söfnun brotajárns hérlendis hófst 1949 að forgöngu fyrirtækisins Sindra-Stáls hf. í Reykjavík. Á tímabili voru fleiri aðilar viðriðnir söfnun brotajárns, en nú mun Sindra-Stál vera eini aðilinn sem safnar brotajárni á kerfisbundinn hátt. Aðalbækistöð fyrirtækisins fyrir söfnun og vinnslu brotajárns er við Sundahöfn í Reykjavík, en auk þess hefur fyrirtækið aðstöðu á Ísafirði, í Bolungarvík, á Siglufirði, Akureyri, Hofsósi, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Ef tekið er meðaltal af útflutningi brotajárns frá árunum 1950–1980 hafa að meðaltali verið flutt út um 3500 tonn á ári. Í áliti Almennu verkfræðistofunnar frá 28. febr. 1980 kemur m. a. fram í niðurlagi, með leyfi hæstv. forseta:

„Brotajárnssöfnun á Íslandi hefur undanfarin ár verið um 4000 tonn á ári. Ætla má að með samstilltu átaki og auknu fjármagni megi auka söfnun og vinnslu upp í 9–10 þús. tonn á nokkru árabili, þótt ekki skuli fullyrt um hagkvæmni þess að svo komnu máli. Verksmiðja, sem framleiðir 15 þús. tonn af járni og notar 17 500–18 000 tonn af hráefni virðist munu verða háð erlendum aðföngum að nokkru leyti fram undir aldamót. Hvort hægt er að tryggja þau aðföng og hvort verksmiðjan er arðbær við þau skilyrði yrði væntanlega meginviðfangsefni næsta áfanga þessa máls. Til hins hníga þegar gild rök, að brotajárnssöfnun á Íslandi sé athyglisverður vaxtarsproti í íslensku athafnalífi, jafnt í hagrænu, atvinnulegu og umhverfislegu tilliti.“

Í framhaldi af þessu ákvað iðnrn. hinn 30. júní 1980 að skipa verkefnisstjórn er skyldi sjá um gerð áætlunar varðandi framleiðslu steypustyrktarstáls og athuga hvort slík framleiðsla geti talist arðbær og þá á hvaða forsendum. Verkefnisstjórn þessa skipuðu Friðrik Daníelsson frá Iðntæknistofnun, formaður, Sveinn Erling Sigurðsson frá Seðlabanka Íslands, Haukur Sævaldsson frá Stálfélaginu hf. og Jafet S. Ólafsson starfsmaður iðnrn.

Auk verkefnisstjórnar unnu eftirtaldir aðilar að áætluninni: Almenna verkfræðistofan hf., er sá um kostnaðaráætlun vegna mannvirkja svo og markaðs- og hráefnisöflunaráætlun, Iðntæknistofnun, sem vann að tæknilegri samanburðarathugun og stofnkostnaðaráætlun, og Jón Steingrímsson verkfræðingur, sem sá um athugun á innflutningi hráefnis, gerð rekstrarkostnaðaráætlunar, arðsemiáætlunar og svokallaðrar viðkvæmniathugunar.

Samband var haft við vélaframleiðendur og ýmsa aðila erlendis. Einkum var leitað að fyrirmynd í Svíþjóð og sýndi þarlend verksmiðja, er nefnist Quartshammarsbruk, sérstakan áhuga á miðlun upplýsinga, en verksmiðja þessi er svipuð að stærð og sú sem áformað er að byggja hér á landi. Stærð þeirrar verksmiðju, sem hér um ræðir, er 15 þús. tonna ársframleiðsla, en til þeirrar framleiðslu þarf um 17 500 tonn af brotajárni, eins og áður greinir. Mikill fjöldi verksmiðja af svipaðri stærð mun starfræktur víða um heim og eru tæki og vélar í slíkar verksmiðjur auðfáanleg.

Verkefnisstjórn sú, sem fyrr er getið, skilaði skýrslu til iðnrn. 27. nóv. 1980. Í niðurstöðum þeirrar skýrslu, sem hv. alþm. hafa fengið, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Núverandi innanlandsmarkaður fyrir steypustyrktarstál er um 13 þús. tonn á ári. Gert er ráð fyrir 2.1% árlegri aukningu hérlendis í notkun steypustyrktarstáls næsta áratug (var 5% á árunum 1970–1980) og að markaðshlutdeild innlendrar verksmiðju verði um 90% af þeim markaði. Yrði framleiðslumagnið 12700 tonn fyrsta framleiðsluárið ef framleiðsla hæfist 1983. Ekki er reiknað með útflutningi.

Reiknað er með að verksmiðjan kaupi allt að 40% af nauðsynlegu brotajárni erlendis fyrstu árin, meðan íslensk brotajárnsframleiðsla er að þróast. Mun hlutfallið af innfluttu brotajárni lækka jafnt og þétt á rekstrartímabilinu. Áætlað er að milli áranna 1988 og 2000 falli hérlendis til að meðaltali 15 þús. tonn af nýtilegu brotajárni á ári.

Hugsanlegt er að meðan á byggingu verksmiðjunnar stendur verði keyptar birgðir af innlendu brotajárni sem gera mundu innflutning óþarfan fyrstu ár rekstrartímabilsins (a. m. k. þrjú ár).

Stofnfjárþörf verksmiðjunnar er áætluð 67.7 millj. sænskra króna. Í áætluninni eru gerðar kröfur um að fjárfestingin skili sér á 15 árum, þ. e. að endingartími verksmiðjunnar verði 15 ár og að meðalsöluverð steypustyrktarstáls verði 2187 sænskar kr. á tonn (frá verksmiðju). Afkastavextir fjárfestingarinnar á 15 ára rekstrartímabilinu eru áætlaðir 10.6% (á föstu verðlagi). Ef meðalverð síðustu tveggja ára helst allt rekstrartímabilið verða afkastavextir um 8%, en gert er ráð fyrir að stálmarkaðurinn, sem nú býr við offramleiðslu og lágt verð, nái jafnvægi um miðjan áratug, og muni verð því hækka á alþjóðamarkaði og afkastavextir verksmiðjunnar þar með.

Ef stjórnvöld eru reiðubúin að vernda framleiðsluna tímabundið fyrir verðfellingu (dumping) erlendra framleiðenda þannig að verksmiðjan búi við svipað afurðaverð og erlendir framleiðendur í sínum heimalöndum er rekstrargrundvöllur verksmiðjunnar tryggður. Að öðrum kosti gæti orðið um tímabundna erfiðleika að ræða.

Kostir steypustyrktarstálsframleiðslu, sem ekki hafa verið metnir í fjármunum í þessari áætlun, eru m. a.:

1) Umhverfisbætandi áhrif. (Nýtir brotajárn sem annars safnast fyrir).

2) Aukin atvinna í landinu.

3) Eykur öryggi hvað varðar aðdrætti grundvallarbyggingarefnis.

4) Gjaldeyrissparandi áhrif.

5) Eykur fjölbreytni atvinnulífsins og inn flyst þekking um grundvallariðnaðarstarfsemi.

Ókostur innlendrar framleiðslu yrði fyrst og fremst, að þegar erlendis eru erfiðleikar í stáliðnaðinum gæti tímabundið orðið hærra verðlag á innanlandsmarkaði miðað við það sem yrði ef um verðfellingu erlendu framleiðendanna væri að ræða. Ef gripið yrði til verndunaraðgerða af hálfu stjórnvalda mundi verð þannig hækka eða haldast hátt, en þó að líkindum aðeins um takmarkaðan tíma.

Niðurstöður verkefnisstjórnar eru, að steypustyrktarstálverksmiðja sú, er hér um ræðir, geti skilað viðunandi arði og reynst nokkuð stöðugt fyrirtæki.“

Getið var um sænskar krónur í þessari tilvitnun. Það er vegna samvinnu og samanburðar við sænska steypustyrktarjárnsverksmiðju af hliðstæðri stærð.

Stofnkostnaður þeirrar verksmiðju, sem hér um ræðir, er áætlaður um 100 millj. kr., miðað við verðlag í apríl 1981, og er áformað að hlutafé nemi um 30% af stofnkostnaði eða um 30 millj. kr. Við stálbræðsluna er reiknað með að starfi 63 menn. Aflþörf verksmiðjunnar er um 10 mw., en til að framleiða 1 tonn af steypustyrktarstáli þarf 900 kwst., þannig að við 15 þús. tonna framleiðslu notar verksmiðjan 13.5 gwst. á ári.

Staðsetning verksmiðjunnar er áformuð innan stór-Reykjavíkursvæðisins, bæði vegna nálægðar við stærsta hluta markaðarins og þess, að um 60% brotajárnsmagnsins fellur til á höfuðborgarsvæðinu. Tveir staðir hafa helst komið til álita:

1) Korpusvæðið, þ. e. Geldinganes, Grafarvogur eða Gufunes.

2) Straumsvík, þ. e. svæðið norðan álverksmiðjunnar í Straumsvík.

Báðir þessir staðir hafa flesta þá kosti sem krafist er, þ. e.:

1) Nálægð hafnar.

2) Nálægð raflínu (132 kílóvolta eða 220 kílóvolta).

3) Gott vegakerfi.

4) Svæði, sem ætlað er til iðnaðar, er hentugt.

5) Góðir möguleikar eru á byggingu viðlegubakka og/eða plani til niðurrifs á skipsskrokkum.

Samkvæmt skýrslu Almennu verkfræðistofunnar er gert ráð fyrir að söfnun og vinnsla brotajárns geti á nokkrum árið vaxið í um 10 þús. tonn og þegar kemur fram yfir árið 1988 ætti nýtanlegt brotajárnsmagn að vera komið í um 15 þús. tonn á ári til jafnaðar.

Meðan á byggingu stendur er unnt að safna nokkrum birgðum, en til viðbótar þyrfti verksmiðjan að flytja inn nokkurt brotajárnsmagn fyrstu ár stálbræðslunnar.

Árið 1979 nam meðaltal safnaðs brotajárns á íbúa á Norðurlöndum um 77 kílóum á ári, sem þýða mundi um 17 þús. tonn á Íslandi. Í þessu tilviki stöndum við nokkuð að baki nágrannaþjóðum okkar, en með samstilltu átaki er ég þess fullviss að auka má söfnun á brotajárni verulega þannig að við nálgumst það meðaltal sem er á Norðurlöndum.

Stáliðnaður á í örðugleikum eins og stendur, en útlit er fyrir að eftirspurn eftir stáli fari vaxandi og verð hækki verulega á komandi árum. Samkvæmt spám í bandaríska tímaritinu Chase Econometrics er talið að verð á stálafurðum sé nú að meðaltali 10–15% lægra en gera megi ráð fyrir yfir lengri tíma. Á Vesturlöndum hefur magnaukning á ári á stáli verið eftirfarandi, og spá Chase Econometrics um þróunina er svofelld:

Magnaukningin var á árabilinu 1973–1979 nánast engin eða mínus 0.1%, en á tímabilinu 1979–1984 er gert ráð fyrir 3.8% aukningu og á árabilinu 1985–1990 3.1% aukningu.

Hvað varðar stærð íslenska markaðarins fyrir steypustyrktarstál má gera ráð fyrir aukningu í notkun. Þá er reiknað með kílói af stáli í tonn af steinsteypu. Innflutningur á steypustyrktarstáli hefur sveiflast nokkuð á undanförnum 15 árum. Valda virkjunarframkvæmdir aðallega þeim sveiflum. Á línuriti, er fylgir frv., er sýnd þróun innflutnings og gerðar eru tvær spár um áframhaldandi þróun. Niðurstaðan af þessum spám er að verksmiðjan muni geta byggt á öruggum innanlandsmarkaði sem væri í byrjun (1983) hugsanlega um 12–13 þús. tonn, en mundi vaxa í um 17 þús. tonn eftir 15 ár frá gangsetningu verksmiðjunnar. Reiknað er með að verksmiðjan hafi allt að 90% markaðshlutdeild innanlands. Ekki er gert ráð fyrir útflutningi, en þó eru fyrir hendi möguleikar á útflutningi til nágrannalanda, svo sem til Færeyja og Grænlands.

Innflutt steypustyrktarstál kemur nær eingöngu frá Noregi. Meðalverð tveggja síðustu ára á steypustyrktarstáli til Íslands hefur verið lágt, eða um 1630 sænskar kr. á tonn á núgildandi verðlagi. Verð norrænna framleiðenda á eigin heimamarkaði (þ. e. frá verksmiðju) er nú hins vegar um 2000 sænskar kr. á tonn eða meira en 20% hærra en meðalverð síðustu ára til Íslands.

Ef gert er ráð fyrir að verðið á steypustyrktarstáli á Norðurlöndum sé nú 10–15% undir langtímajafnvægisverði, sem svo er kallað, yrði „eðlilegt“ verð, ef nota má það orð, 2200–2300 sænskar kr. á tonn frá verksmiðju. Ef flytja þyrfti inn stál á þessu verði gæti það því hingað komið kostað yfir 2400 sænskar kr. á tonn þegar jafnvægi ríkir í stálframleiðslunni. Vitað er að þau fyrirtæki, sem nú selja á niðarsettu verði á Íslandsmarkað, búa við litla eftirspurn heima fyrir. Þegar jafnvægi næst milli framboðs og eftirspurnar má því gera ráð fyrir verðhækkun á innfluttu steypustyrktarstáli, nema um sé að ræða einhvern óvenjulegan áhuga framleiðendanna á markaði fyrir steypustyrktarstál hérlendis.

Miðað við gangsetningu stálbræðslu 1983 gæti slík verksmiðja þurft að búa við undirboð stórra erlendra framleiðenda fyrstu tvö starfsárin, að mati fróðra aðila, nema gripið verði til aðgerða af hálfu stjórnvalda. Í viðskiptasamningum Íslands, í GATT-samningnum og EFTA-samningnum, er heimild fyrir stjórnvöld til að grípa til aðgerða gegn „dumping“ eða undirboðum erlendra aðila. Heildarniðurstöður um afkomumöguleika verksmiðjunnar eru að reksturinn skili arði á 15 ára rekstrartímabili með a. m. k. 5% afkastavöxtum fjárfestingar. Afkastavextir, sem nema um 10% af fjárfestingu, eru taldir líklegir, en það fer eftir hversu langan tíma það tekur að markaðsástandið nái jafnvægi.

Í 2. gr. þessa frv. segir m. a.:

„Í tengslum við aðild sína að hlutafélaginu er ríkisstj. heimilt:

1. Að leggja fram allt að 12 millj. kr. af fé ríkissjóðs sem hlutafé í nefndu hlutafélagi og að taka lán í þessu skyni. Framangreind upphæð miðast við lánskjaravísitölu 1. apríl 1981 og breytist í samræmi við hana.

2. Að veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán, er hlutafélaginu verði veitt til byggingar verksmiðjunnar, að fjárhæð samtals 17.5 millj. kr., eða jafnvirði þess í erlendri mynt.

3. Að fella niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum, tækjum og varahlutum til verksmiðjunnar. Fjmrh. setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis og aðra þætti er varða aðflutnings- og sölugjöld af efni og aðföngum til verksmiðjunnar.“

Í 3. gr. er kveðið á um að ekki verði lagðar hömlur á tölu stofnenda eða hluthafa í félaginu, m. a. með hliðsjón af aðild ríkisins að því. Fjmrh. og iðnrh. skipa fulltrúa ríkissjóðs á aðalfundi að jöfnu, miðað við að um ríkisþátttöku verði að ræða. Stjórn félagsins fer að öðru leyti eftir samþykktum þess.

Að lokum vil ég geta þess, að Stálfélagið hf. hefur þegar efnt til almenns hlutafjárútboðs og ætlar félagið að safna 18 millj. kr. hlutafé á almennum markaði. Hlutafjársöfnun er nú í fullum gangi, en of snemmt mun að fullyrða um árangur hennar. Stálfélagið hefur kynnt málið fyrir einstaklingum, sveitarfélögum og fyrirtækjum, bæði með kynningarbréfum, kynningarfundum og dreifibréfum.

Um einstaka þætti stálbræðslunnar vísast að öðru leyti til skýrslu iðnrn. undir heitinu Stálbræðsluáætlun frá des. 1980, sem þm. hafa fengið.

Herra forseti. Að lokum vil ég leggja áherslu á að frv. þetta fái afgreiðslu og verði lögfest á þessu þingi til að undirbúningur stálbræðslu þurfi ekki að tefjast frekar en orðið er vegna vöntunar á heimildum sem hér er beðið eftir. Forusta í málinu er að öðru leyti í höndum áhugaaðilanna, Stálfélagsins hf., sem ég vil þakka margar heimsóknir og samstarf að þessu máli á liðnum árum.

Ég legg til að að umr. þessari lokinni verði málinu vísað til hv, iðnn.