06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4017 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

314. mál, stálbræðsla

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Reykn. fyrir góðar undirtektir þeirra við þetta frv. Mér er það ánægjuefni, að þess má vænta að hægt verði að lögfesta á þessu þingi þær heimildir sem hér er leitað eftir.

Það var ein fsp. sem vikið var að af hv. 4. þm. Vestf. í sambandi við 3. gr. frv. Þar er engin sérstök stefnumörkun af minni hálfu á ferðinni, heldur að ég vil telja lagatæknilegt atriði sem sjálfsagt er að lítið sé á í hv. iðnn. þessarar deildar. Það eru frávik sem talið var rétt að fram kæmi að veitt yrðu frá lögum um hlutafélög. Ég hef alltaf verið fullviss um að hluthafar í þessu fyrirtæki, Stálfélaginu hf., sem yrði eignar- og rekstraraðili þessarar verksmiðju, mundu skipta tugum ef ekki hundruðum. Ég held að þeir áhugasömu aðilar, sem hafa barist í heilan áratug fyrir því að koma þessu fyrirtæki á fót, hafi einmitt gert ráð fyrir að höfða til fjöldans í sambandi við hlutafjáröflun. Þeir hafa lagt áherslu á að á það fengi að reyna að einstaklingar og aðrir aðilar legðu af fúsum og frjálsum vilja fram fjármagn í þessu skyni þó að ríkið kæmi þar með ákveðinn stuðning, eins og er leitað eftir með þessu frv.