06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

123. mál, hollustuhættir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 4. þm. Vesturl., 3. þm. Vestf. og l. þm. Norðurl. v. brtt. við 6. gr. frv. í 29 liðum og eru þær þess efnis frá því sem er í frv., að í stað þess að fulltrúar viðkomandi hreppa í sýslunefndum kjósi tiltekna tölu fulltrúa í heilbrigðisnefndir kjósi hreppsnefndir þeirra hreppa svo marga sem segir í brtt.

Það kom fram, eftir að heilbr.- og trn. afgreiddi frv., allmikil óánægja hjá þó nokkuð mörgum þm. og sömuleiðis utan þings með að sýslunefndum væri ætlað að tilnefna fulltrúa í heilbrigðisnefndir. Sýslunefndarmenn eru kjörnir sérstakri kosningu til sýslunefnda og þar af leiðandi eru þeir ekki skuldbundnir til að hafa náið samráð við hreppsnefndir. Því þykir eðlilegra að viðkomandi hreppsnefndir kjósi þessa fulltrúa. Þar sem hér hvílir líka á bæði greiðsluskylda og ábyrgð hreppsfélaga þótti okkur rétt að gera hér tillögu um þessa breytingu og flytja þessa till.; þingmenn úr öllum flokkum. Það hefur ekki unnist tími til að halda fund í heilbr.- og trn., enda ekki brýn ástæða til út af þessu atriði, en formaður n. og aðrir nm. eru sammála um að gera þessa breytingu og því meðmæltir brtt.

Ég vil út af frv. segja örfá orð. Mér er alveg ljóst að það má ýmislegt finna að þessu frv. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en það er líka nauðsyn á því að það reyni á þær nýjungar sem þetta frv. gerir ráð fyrir, enda gert ráð fyrir endurskoðun innan tiltekins tímabils. Hins vegar eru þessi lagaákvæði gömul að meginefni og hafa flest reynst vel í framkvæmdinni. Ég tel að með samþykkt þessa frv. sé stigið veigamikið skref til bóta, þó að eflaust megi út á ýmislegt setja, en þar verður reynslan að skera úr og bæta má um að fenginni framkvæmd þessa frv. þegar það er orðið að lögum.