06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

123. mál, hollustuhættir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri brtt. sem hér er fram komin og er tvímælalaust til bóta. Það er ánægjulegt að menn skyldu taka sig til og byrja þá á því verki að lagfæra þetta frv. — lagfæra það frá því sem það kom úr nefnd. En ég vænti þess eindregið að Alþingi Íslendinga gefi sér meira ráðrúm til að fjalla um frv.

Ég vil eyða þeim misskilningi sem kom fram hjá hæstv. ráðh., — misskilningi sem virtist gæta hjá honum því að þar kom fram að ég hefði þá skoðun að sýklarnir ættu að hafa meiri rétt en menn. Það er yfirleitt ekki á dagskrá og hafi hann trúað því í alvöru, að svo væri, leiðréttist það hér með í allri vinsemd.

Aftur á móti vil ég koma því á framfæri, að við vorum að samþykkja lög í fyrra um vinnueftirlit og hollustuhætti á vinnustöðum og í sambandi við þá lagasetningu var talað um að leggja niður stofnanir, ef ég man þetta rétt. M. a. talaði hæstv. ráðh. um að leggja niður Brunaeftirlit ríkisins. Nú sýnist mér að það hafi lítið gerst í þeim efnum, aftur á móti séum við að koma okkur upp þreföldu kerfi varðandi heilbrigðiseftirlit. Við höfum Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Við höfum Vinnueftirlit sem á að sjá um hollustu á vinnustöðum. Ég vænti þess, að þm. muni eftir því, að fyrir skömmu rákust verksvið þessara tveggja aðila á, eins og frægt var í fjölmiðlum, út af kísilverksmiðjunni við Mývatn. Með þeirri samþykkt, sem hér er verið að leggja til, kæmi þriðji aðilinn inn í sama verkið. Þetta nær engri átt. Við þurfum að standa öðruvísi að lagasetningu. Það er að vísu talað um að leggja niður Heilbrigðiseftirlitið, en verður það gert? Við þurfum að koma í veg fyrir þá skörun sem hér verður, sjá til þess, að það sé afmarkað verksvið hjá hverjum og einum, en ekki að það sé um þrefalt, fjórfalt eða fimmfalt eftirlit að ræða, eins og gæti verið í frystihúsum samkv. þessu: þar væri í fyrsta lagi eftirlit frá sjávarútveginum með hollustuháttum, svo kæmi eftirlit frá SH, svo kæmi eftirlit frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, svo kæmi eftirlit frá Vinnueftirliti ríkisins og svo kæmi næst hollustufulltrúi á staðinn. Þetta væru fimm stykki og ef þeir ferðuðust allir með sömu flugvélinni gæti orðið sparnaður að því að kaupa fyrir þá rellu í stað þess að láta þá ferðast með venjulegu áætlunarflugi á milli.

Það má vel vera að hægt sé að blekkja einhverja með því að segja að þetta sé kostnaður sem eigi að leggja á atvinnuvegina, þjóðin eigi ekki að greiða þetta. En sannleikurinn er náttúrlega sá, að þeim mun meira sem við skattleggjum atvinnuvegina með einum og öðrum hætti, þeim mun lélegri verða lífskjörin í landinu.

Það vekur undrun mína hversu kátir menn hafa verið að samþykkja þetta þegar þeir svo í öðru orði hafa verið að básúna með slagorð eins og „báknið burt“. Hvar eru stuðningsmenn þess slagorðs nú? Hér er verið að efla skrifræðið, en ekki reynt að samræma. Hvar eru þeir? Eru þeir týndir? (Gripið fram í: Þeir náðu ekki kjöri.) Er þeim ekki ljóst að með svona lagasetningu er verið að auka skattheimtu í landinu? Ég held að það væri ákaflega hollt að athuga hvort það væri ekki hægt, samtímis og frv. sem þetta er lagt fram, að leggja þá til að endurskoða þetta kerfi til einföldunar, ef það er það sem menn meina. (Félmrh.: Vill hv. þm. vera svo vinsamlegur að lesa frv.) Vill hæstv. ráðh. vera svo vinsamlegur að neyta aðeins þess mikla forgangsréttar sem hann hefur til málfrelsis fram yfir aðra hér í deildinni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Það er komin brtt. Það er búið að bera fram ógrynni af brtt. sem er búið að samþykkja af deildinni. Það er búið að tala um að það þurfi nauðsynlega að endurskoða þetta frv. og fara yfir það og lagfæra það. Spurningin er aðeins þessi: Ætlum við að lagfæra það áður en það verður að lögum eða ætla menn fyrst að gera það að lögum og fara svo í lagfæringuna á eftir? Þetta er spurningin sem við blasir. Það vita allir hér inni að það þarf að framkvæma miklar lagfæringar á þessu frv.