06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4026 í B-deild Alþingistíðinda. (4111)

123. mál, hollustuhættir

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. vegna þeirra orða sem fram komu í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, 5. þm. Vestf. Hann virðist, eins og kom fram í frammíkalli, ekki vera búinn að lesa frv. nægilega vel vegna þess að hann minnist ekki á og lætur eins og hann viti ekkert um að hér er að sjálfsögðu að grundvelli til verið að endurskoða lög sem hafa verið í gildi um langt árabil hjá okkur. Það er verið að endurskoða og endurbæta eða stefna að því. Óneitanlega er komið inn á það í þessu frv., og ef það verður samþykkt er staðreynd að það er sameinuð starfsemi sem nú er sundurgreind.

Í þeirri grein, sem hv. síðasti ræðumaður var að vitna til, er einmitt getið um að þegar lög þessi taki gildi falli úr gildi þau lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem hafa verið í gildi frá 1969 og einnig lög um matvælarannsóknir. Það þýðir auðvitað að þetta er hvort tveggja sameinað. Ég tek undir það, sem hann sagði, að rétt væri að inn sé bætt í lögin á seinna stigi og þá kannske hjá þn. Ed. þeirri upptalningu sem hann minntist á. Það verður sjálfsagt betri skýring fyrir þá sem eiga að leita sér upplýsinga í þessum lögum þegar frv. væntanlega verður orðið að lögum.

Þá vil ég enn fremur benda hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni á 6. lið í ákvæðum til bráðabirgða og reyndar fleiri liði þar, — hann mætti gjarnan lesa þetta allt saman einu sinni yfir áður en hann fer að blaðra hér um það sem hann virðist ekki vita um, — en í 6. lið er m. a. sagt að það eigi að stefna að því á næstu fimm árum að fella starfsemi eiturefnanefndar, áfengisvarnaráðs og manneldisráðs undir starfsemi hollustuverndar ríkisins með breytingum á gildandi lögum þar um. Það hefur verið eitt meginverkefni þn. í allan vetur að reyna að draga úr þar sem skörun væri um of. Við gerðum okkur fulla grein fyrir því, að það var viss hætt og er viss hætta á því, og við höfum fengið nokkur dæmi þar um. Og það segir ekkert um að gildandi lög um framleiðslueftirlit sjávarútvegsins eigi ekki áfram að vera. Það er, hefur verið og verður. Sama má reyndar segja um landbúnaðinn og fleiri greinar. — En ég held að allir séu sammála um að stefna að frekari sameiningu með sparnað og betri nýtingu vinnuafls og fjármuna í huga, sbr. það sem n. hefur lagt til í 9. lið ákvæða til bráðabirgða, þar sem segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. láti fara fram athugun á hvort sameina eða samræma megi frekar en gert er með lögum þessum starfsemi aðila, sem fara með ýmiss konar hollustuhátta- og heilbrigðiseftirlit og eftirlit til varnar skaðlegum áhrifum umhverfis á heilsufar manna. Jafnframt fari fram könnun á möguleikum til frekari samræmingar löggjafar um þessi mál. Skal könnun þessari lokið innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara.“

Ég fæ ekki séð hvernig í ósköpunum það eigi að vera hægt að koma því fyrir, þó að lög séu endurskoðuð, að það sé ráðin bót á öllum meinum í þessu smákóngaríki embættismennskunnar á Íslandi í fyrsta sinn sem gerð er verulega tilraun til þess. Ég álit að það, sem hér sé gert núna, og sá afrakstur, sem liggur þó hér fyrir — fyrst vegna starfa þeirra manna, sem unnu að undirbúningi frv., og svo síðar nú í vetur vegna starfa þn., sem að þessu hefur unnið ásamt mönnum úr starfsnefndinni, — ég álít að það sé af hinu góða og við séum á réttri leið.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson talaði um að það væri gott að byrja á einhverjum lagfæringum. Hann hélt hér nokkrar tölur við 2. umr. málsins og var með ábendingar og brtt., en hann minntist ekki á þetta atriði sem nú er lögð fram brtt. um, ef ég man rétt. Nú er það allt í einu orðið höfuðmál. Merkilegt að hann skyldi ekki sjá það strax við 1. umr.

Ég get ekki verið honum sama sinnis um að það sé einhver skilsmunur á milli íslensku þjóðarinnar og atvinnuveganna. Ég er hræddur um að við stæðum heldur illa ef við hefðum þá ekki og reyndum að búa þannig að þeim að þeir fái staðist og gegnt sínu mikilvæga hlutverki á eðlilegan hátt, þótt hins vegar hér á Alþingi Íslendinga greini okkur á — og þó kannske aldrei frekar en í tíð núv. hæstv. ríkisstj. — um hvernig að því máli skuli staðið. En um þann sýklahernað ætla ég ekki að ræða hér.