06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4027 í B-deild Alþingistíðinda. (4112)

123. mál, hollustuhættir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í sambandi við ábendingu hv. 1. þm. Norðurl. v. er sjálfsagt, finnst mér fyrir mitt leyti, að taka fram varðandi 36. gr. hver þessi ósamrýmanlegu ákvæði annarra laga eru.

En varðandi það, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, er það mikill misskilningur að hér sé verið að stækka báknið, heldur er hér verið að samræma vinnubrögð. Sú samræming getur ekki farið fram án undirbúnings því að hún kemur víða við og við margar stofnanir sem fyrir eru. Hér er t. d. stefnt að því, að eiturefnanefnd, áfengisvarnaráði og manneldisráði sé sköpuð aðstaða innan stofnunarinnar í nánu samstarfi við hana, en haldið sé fullu sjálfstæði samkv, tilgreindum lögum sem þessar stofnanir starfa eftir. Allt kemur þetta inn í væntanlega endurskoðun. Enn fremur kemur þetta frv. og raunar gildandi lög um heilbrigðiseftirlit inn á starfsemi annarra ráða og stofnana sem fyrir eru. T. d. kemur starf Náttúruverndarráðs inn á starfsemi Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Alþingi hefur sett lög er varða Náttúruverndarráð, sem koma að vissu leyti þvert á starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins, og hafa þau verið í gildi um nokkurt árabil. Lögin um Vinnueftirlitið eru ný. Það kemur í staðinn fyrir Öryggiseftirlitið með miklu víðtækara starfssviði. Þessi mál koma líka og hafa komið og eru að koma að vissu leyti inn á verksvið Siglingamálastofnunar. Frv. kemur inn á margvísleg önnur lög og eftirlit, sem ekki er verið að ganga neitt á, eins og hv. 1. landsk. þm. nefndi.

Ég tel að þetta frv., eins og það liggur núna fyrir, sé mjög til bóta þó að ýmsar endurbætur megi á því gera. En það verður að fá reynslu og þekkingu og læra af henni.