06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4030 í B-deild Alþingistíðinda. (4116)

123. mál, hollustuhættir

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. 5. þm. Vestf., Ólafs Þ. Þórðarsonar. Þetta eru sömu áhyggjur og oftlega komu fram í nefndinni. Hættan liggur í því, þegar svona stórir lagabálkar eru á ferðinni, að annars vegar sé um að ræða skörun, þ. e. að tvenn lög segi til um að einhverjar tvær stofnanir eigi að sjá um það sama, og hins vegar er sú hætta líka til að eitthvað falli niður. Sú hætta er vissulega einnig til. Nefndin gerði sér þessa hættu fyllilega ljósa, enda er hvorki meira né minna en á þremur stöðum í bráðabirgðaákvæðum reynt að sigla fram hjá þessu: í 6. lið, í 9. lið og svo í 10. lið þar sem stendur að endurskoða skuli lögin innan fimm ára. Ég held að það sé eins vel fyrir þessu séð og hægt er og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þurfi ekki að hafa verulegar áhyggjur af þessu, auk þess sem nokkur lög eru strax felld úr gildi.

Ég skil einnig vel áhyggjur hv. 1. þm. Norðurl. v., en ég vona að þar geti líka fengist farsæl lausn.

Hv. þm. Friðrik Sophusson kom inn á hinar ýmsu eftirlitsstofnanir. Þess vegna vil ég segja það, að brunavarnaeftirlit á hiklaust að mínu mati að fara undir vinnustaðaeftirlitið, hvað sem að öðru leyti verður um Brunamálastofnunina.