06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4030 í B-deild Alþingistíðinda. (4117)

123. mál, hollustuhættir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. 1. landsk. þm. kvartaði yfir því, að ég hefði ekki flutt brtt. og ekki komið með þær ábendingar sem ég hefði þó verið hlynntur að yrðu gerðar. Ég taldi að það hefði komið alveg skýrt fram í mínu máli að ég vildi láta vinna þetta frv. betur í heild, en ég ætlaði mér ekki að fara að semja það hér í ræðustól, eins og mér virðist að sé að verða niðurstaðan. (Gripið fram í: Það flýtir fyrir.) Það flýtir fyrir, er sagt hér á bak við mig, og það má vel vera.

Ég get líka tekið undir það, að ég hefði þurft að lesa þetta frv. fram og til baka. Það er sumt í þessu sem ég hreinlega ekki skil. Það er kannske rétt að ég beini þeirri spurningu til hv. 1. landsk. þm. hvaða ónytjadýr það eru sem nefnd eru á fyrstu síðu frv. Er þetta nýyrði yfir lýsnar eða er þetta almennt yfir farfugla og aðrar skepnur sem ganga eða fljúga hér á landi? Hvaða ónytjadýr eru þetta? Samkv. orðanna hljóðan á að lesa þetta á þennan veg, skilst mér, með leyfi hæstv. forseta: „Í heilbrigðisreglugerð skulu vera almenn ákvæði um:... 5. Meindýr og eyðingu þeirra svo og ónytjadýr“ — þ. e. almenn ákvæði skulu vera um ónytjadýr. Það er sennilega ferðafrelsi og réttur til athafna — eða hver er hugsunin á bak við þetta? Ætli það væri ekki rétt að hv. 1. landsk. þm. gerði grein fyrir því, hver væri hugsunin á bak við þetta hjá n. Ég vildi mjög gjarnan að það kæmi skýrt fram þannig að það væri í þskj. alveg á hreinu hvað vekti fyrir hv. nefnd.

En ég treysti því satt best að segja að Ed. taki þetta mál til meðferðar og geri á því bragarbót og firri þannig Alþingi því að þetta verði gert að lögum óbreytt.