06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4032 í B-deild Alþingistíðinda. (4120)

123. mál, hollustuhættir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er eins og sumir hv. þm. virðist ekki hafa lesið frv. eða gert sér grein fyrir því og kvarta svo undan því, að ekki hafi verið leitað til ákveðinna samtaka. Nefndin, sem vann að undirbúningi þessa máls og skipuð var um mitt ár 1978, gekk frá sínum fyrstu drögum í lok maímánaðar 1979 og gerði í þeim ráð fyrir mikilli samræmingu, eins mikilli og hún taldi sér unnt, og sendi svo drögin, sem hún gengur frá, fjölmörgum aðilum, eins og fram kemur í grg. með frv. Hún sendi flestum ráðuneytum drögin. Hún sendi þau jafnframt landlækni, yfirdýralækni, eiturefnanefnd, manneldisráði, samstarfsnefnd um reykingavarnir, Náttúruverndarráði, Sambandi ísl. sveitarfélaga, ASÍ, BSRB, BHM, Vinnuveitendasambandinu, Vinnumálasambandinu, borgarstjórn Reykjavíkur, stærsta sveitarfélagsins í landinu, samböndum sveitarfélaga í Borgarnesi, á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, í Keflavík og Mosfellssveit. Það er rétt að hún sendi ekki hverri hreppsnefnd þau. Svo koma stjórnarmenn í Sambandi ísl. sveitarfélaga nú við 3. umr. þessa máls og kvarta undan því, að málið hafi aldrei verið tekið fyrir í þeirra samtökum. Ég veit ekki hvort er hægt að gera betur og hafa nánari samvinnu við sveitarfélögin en að skipa sérstaklega fulltrúa frá þeim og senda drög Samböndum og öllum fjórðungssamböndum sveitarfélaga í landinu, auk fjölmargra annarra stofnana sem drögin voru send. Það getur því enginn kvartað undan því, að hann hafi ekki haft tíma og tækifæri til að gera aths. við það sem þessir nm. lögðu til og síðar var lagt til, eftir að málið var lagt fram á Alþingi og heilbr.- og trn. fjallaði um frv.