06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (4126)

315. mál, Bjargráðasjóður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og flestum mun vera í fersku minni gekk mikið óveður yfir landið aðfaranótt 17. febr. s. l. Í þessu veðri varð mjög verulegt og þungbært eignatjón hjá mörgum einstaklingum og fyrirtækjum. Gerð hefur verið úttekt á þessu tjóni með það fyrir augum að unnt verði að veita mönnum lánafyrirgreiðslu til að framkvæma þær viðgerðir sem óhjákvæmilegar eru af völdum þessa tjóns, og er áformað að fela Bjargráðasjóði að annast þá lánafyrirgreiðslu. Þess vegna er nú flutt þetta frv. í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar voru við afgreiðslu lánsfjárlaga.

Í 1. gr. er tillaga gerð um að veitt verði heimild til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem Bjargráðasjóður tekur, allt að 15 millj. kr. Lánið má vera verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu eða jafngildi 15 millj. kr. í erlendri mynt. Ábyrgðin skal vera með þeim kjörum og skilmálum sem ráðh. ákveður, og tekur hún jafnt til greiðslu afborgana, verðtryggingar, vaxta og annars kostnaðar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, sem allir hv. alþm. þekkja gerla. Ég óska eftir því, að málið fái hraða afgreiðslu hér á Alþingi, enda liggur á að mál þetta verði afgreitt hið fyrsta og að Bjargráðasjóður geti hafið úthlutun lána. Liggur því töluvert á að málið verði afgreitt héðan frá Alþingi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.