06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4038 í B-deild Alþingistíðinda. (4136)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er á þskj. 60, er staðfesting á brbl. sem út voru gefin 23. júní s. l. og eru breyting á lögum nr. 15 frá 1979. Greinar frv. eða brbl. eru tvær.

Efnisatriði fyrri greinarinnar er að bætt er við heimild í 4. málsl. a-liðar þess efnis, að þegar búmark er ákveðið sé heimilt að taka tillit til ef um er að ræða mikinn fjármagnskostnað vegna byggingarframkvæmda sem teknar hafa verið í notkun 1976 eða síðar.

Síðari greinin er um að leggja megi sérstakt gjald á innflutt kjarnfóður og að gjaldið megi vera allt að 200% á innkaupsverð vörunnar. Síðan eru heimildarákvæði um að endurgreiða megi framleiðendum gjaldið að hluta eftir reglum sem Framleiðsluráð ákveður. Breytingin, sem felst í þessari grein, er að kjarnfóðurgjald megi leggja á allt innflutt kjarnfóður og gjaldið er hækkað úr 100% í 200% af innkaupsverði vörunnar. Í lögum nr. 15 frá 1979 segir, með leyfi forseta:

„Framleiðendur búvöru á lögbýlum og aðrir, sem hafa meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu, skulu án þess að greiða gjaldið fá tiltekið magn kjarnfóðurs miðað við framtalið magn afurða og bústofn á skattframtali, samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Búnaðarþingi var sent mál þetta til umsagnar ásamt brtt. við síðari grein frv. sem Framleiðsluráð og stjórn Stéttarsambands bænda sendu nefndinni. Búnaðarþing samþykkti að mæla með því, að brbl. yrðu samþykkt með þeirri breytingu sem að framan greinir. Á aðalfundi Stéttarsambands bænda á síðasta hausti var fjallað um þetta mál og var þar einnig samþykkt að mæla með að þessi brbl. yrðu staðfest. Þá barst landbn. umsögn frá Verslunarráði Íslands um þetta mál og fylgdi henni eftirfarandi bréf, með leyfi forseta:

„Verslunarráð Íslands hefur haft til umsagnar frv. til staðfestingar á brbl. um breyt. á lögum nr. 15/1979 og nr. 101 frá 1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Vill Verslunarráðið leggja til að skatturinn, eins og hann er ákveðinn í brbl., verði felldur niður, enda eru forsendur fyrir álagningu hans brostnar, eins og kemur fram í meðfylgjandi umsögn framkvæmdastjórnar ráðsins. Auk þess er álagning skattsins og innheimta ólögmæt að mati ráðsins vegna þess að sú framkvæmd er í andstöðu við stjórnarskrána, sbr. meðfylgjandi álit. Einnig er rétt að benda á að tekjur af skattinum eru ekki á fjárlögum og ráðstöfun þess fjár, sem innheimtist, er einnig í höndum annarra en Alþingis. Öll rök mæla því með því að brbl. hljóti ekki staðfestingu Alþingis.“

Með þessari umsögn fylgir álitsgerð frá Helga V. Jónssyni hrl. Kemst hann að svipaðri niðurstöðu og Verslunarráðið, þ. e. að það orki tvímælis hvort þessi brbl. standist samkv. 40. gr. stjórnarskrárinnar.

Landbn. leitaði til lagadeildar Háskóla Íslands varðandi það atriði hvort þessi lög stæðust ekki gagnvart stjórnarskrá. Forseti hennar, Stefán Már Stefánsson, sagði að lagadeildin hefði ekki möguleika á að gera álitsgerð um þetta mál, hún hefði ekki mannafla til þess.

Þá leitaði ég til prófessors Jónatans Þórmundssonar. Mætti hann á fundi nefndarinnar eftir að hafa kynnt sér málið. Niðurstaða hans varð sú, að þessi lög samrýmdust ekki 40. gr. stjórnarskrárinnar og varaði hann við að fela framkvæmdavaldinu ákvörðunarvald um álagningu skatta í neinni mynd. Hins vegar taldi hann ekki líklegt að dómsniðurstaða yrði sú, að lög þessi yrðu dæmd ógild, þrátt fyrir ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar, og á máli hans mátti skilja að það mætti benda á ýmis önnur lög sem svipað væri hægt að segja um og væru hliðstæð og þessi brbl. að því leyti.

Fyrir hönd landbn. skýrði ég hæstv. landbrh. frá umsögn prófessors Jónatans Þórmundssonar og færði honum umsögn Verslunarráðs Íslands ásamt grg. Helga V. Jónssonar, og óskaði ég eftir að hann leitaði álits fleiri lögfræðinga um þetta mál og að því búnu að n. fengi í hendur fullmótaðar tillögur frá ráðh. um hvernig hann legði til að frumvarpsgreinarnar yrðu orðaðar og frá því yrði gengið í samráði og með fullu samþykki stjórnar Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Tjáði ég honum,, að ef þetta lægi ekki fyrir væri vafasamt að meiri hluti fengist í landbn. til að afgreiða málið frá nefndinni.

Landbn, er búin að halda marga fundi um þetta mál. Á fundi n. hafa komið, auk prófessors Jónatans Þórmundssonar, frá bændasamtökunum Gunnar Guðbjartsson, Hákon Sigurgrímsson og Ingi Tryggvason, frá fóðurvöruinnflytjendum Arnór Valgeirsson, Hjörleifur Jónsson og Sigurður Eyjólfsson og frá landbrn. Guðmundur Sigþórsson.

Mjög skiptar skoðanir eru í n. um þetta mál. Meiri hl. n. telur þó rétt, að bændasamtökin hafi sem rýmstar heimildir til að stjórna framleiðslunni, og mælir því með að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem eru á sérstöku þskj., þar sem hæstv. landbrh. og formaður Stéttarsambands bænda hafa lýst því yfir við meiri hl. n. að full samstaða sé af hendi bændasamtakanna og landbrh. um málið eins og meiri hl. n. hefur nú gengið frá því á þskj. 708. Það er ekki breytt efnisatriðum þannig að ég sé ekki ástæðu til að lesa upp þessar brtt.

Hv. þm. Árni Gunnarsson skrifar undir nál. með fyrirvara, en hv. þm. Steinþór Gestsson og Pétur Sigurðsson hafa skilað séráliti. Ég vil þó minna hv. þm. Sjálfstfl. á það, að fyrir þessu þingi liggur þáltill. um stefnumörkun í landbúnaði og eru allir þm. þingslokks Sjálfstfl. sem eru í stjórnarandstöðu, flutningsmenn ásamt hv. þm. Eggert Haukdal. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Gerðar verði markvissar ráðstafanir til að koma á jafnvægi í framleiðslu og sölu búvara. Samtök bænda fái víðtækar heimildir til að stjórna framleiðslu landbúnaðarvara í samræmi við þarfir markaðarins á hverjum tíma. Í þessu sambandi er lögð áhersla á: a) heimilt verði að leggja gjald á allt innflutt kjarnfóður, er að upphæð verði svipuð og nemur útflutningsbótum á kjarnfóðri frá viðskiptalöndum okkar.“

Ég tel sem sagt að frv., eins og nú er gengið frá því, sé í fullu samræmi við þessa yfirlýstu stefnu Sjálfstfl. þó að flokksmenn hafi nú skilað séráliti.