06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (4139)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja hv. landbn. þessarar deildar þakkir fyrir afgreiðslu á þessu máli, sem að vísu hefur tekið nokkuð langan tíma, en ég vænti að afgreiðsla málsins sé þeim mun vandaðri en ella hefði orðið.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál hér efnislega eða tilefni þess að brbl. voru sett á síðasta ári. Það hefur verið gert af minni hálfu áður í þessari hv. deild og ég ætla ekki að endurtaka það. Það, sem hefur borið á góma í þessari umr. er þó kannske aðallega það atriði málsins, að því hefur verið haldið fram að lögin eins og þau voru kynnu að fara í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þessu var m. a. haldið fram af hálfu hv. frsm. minni hl. n. og haldið fram að frv., eins og það er með þeim breytingum sem á eru orðnar, sé þessu marki brennt.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta efni. Ég vil í fyrsta lagi vísa til þess sem fram kom hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni um þetta efni. En ég bar þetta mál undir lögfróða menn og lét rannsaka það mjög gaumgæfilega. Það var álit þeirra lögfræðinga, sem ég lét fjalla um þetta mál, að að vísu hefðu lögin eins og þau voru afgreidd 1979 í för með sér að framkvæmd á gjaldtöku og breyting á gjaldtöku á kjarnfóðurgjaldi væri framseld nokkuð langt frá löggjafarvaldinu, þ. e. eins og segir í þeim lögum, að ef tiltekin skilyrði skapast eru Framleiðsluráði, að fengnu samþykki fulltrúafundar Stéttarsambands bænda og staðfestingu landbrh., heimilar tilteknar tímabundnar ráðstafanir. Samkvæmt þessum lögum frá 1979 er ákvörðunum, er snerta töku kjarnfóðurgjalds, vísað til hagsmunasamtaka. Það þótti hið hæpnasta í þessu máli. Að fengnu þessu áliti lögfróðra manna varð að ráði að breyta þessum ákvæðum laganna frá 1979.

Með þeim breytingum, sem hv. landbn. hefur lagt til, er vald til breytinga á kjarnfóðurgjaldi lagt í hendur ráðh. og það er sambærilegt við það sem gerist í ýmsum tilvikum öðrum varðandi gjaldheimtu eða skattlagningu og nægir að minna á til að mynda bensíngjald og flugvallaskatt. Það mætti telja fleiri skatta eða gjöld til, en í þessum tilvikum hefur ráðh. heimild til að ákveða breytingar á þessum sköttum eða gjöldum með reglugerð. Þetta er sem sé orðin nokkuð viðtekin venja í íslenskri löggjöf og a. m. k., eins og frv. er nú í stakk búið ef brtt. hv. meiri hl. landbn. verða samþykktar, er hér farið í sama far og gert er með löggjöf um önnur efni.

Hitt er svo aftur álitamál, eins og greinilega kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, hvort hér sé um skattlagningu í venjulegum skilningi að ræða. Til að mynda er flugvallaskattur skattheimta til ríkissjóðs. Hér er ekki um að ræða skattheimtu til ríkissjóðs. Hér er um það að ræða að taka gjald af tiltekinni rekstarvöru til að nota þessa aðferð sem stjórntæki í framleiðslumálum landbúnaðarins. Það er nokkuð annar svipur a. m. k. á því en skattheimtu til ríkisins. Það er því mjög eðlilegt að yfirstjórn á því sé í höndum þess fagráðuneytis sem fer með landbúnaðarmál.

Því má líka bæta við, að ef það þyrfti hverju sinni að lögfesta breytingar á kjarnfóðurgjaldi sem þessu, það þyrfti að lögfesta til að mynda lækkun á því eða hækkun eftir því sem talið er nauðsynlegt vegna framleiðsluþróunar, þá er þetta ekki lengur virkt stjórntæki í framleiðslumálum landbúnaðarins, ef hverju sinni þyrfti að ákvarða slíkt með löggjöf frá Alþingi.

Ég tel, eftir þær breytingar a. m. k. sem hv. meiri hl. landbn. leggur til í sínum brtt., ef þær verða samþykktar, engan vafa leika á að þetta frv. sé svo úr garði gert að ekki þurfi að velkjast í vafa um að það standist samkvæmt stjórnarskrá.

Ég vil aðeins segja það vegna orða hv. þm. Steinþórs Gestssonar um þær kvaðir sem lagðar eru á skattstjóra í þessu frv. um að gefa upplýsingar úr framtalsskýrslum, að þar hefur engum kvöðum verið bætt við þær kvaðir sem eru í lögum fyrir. Þess vegna fundust mér tilefnislitlar aðfinnslur hans um það efni.

Ég endurtek að ég ætla ekki að fara út í neinar efnislegar umræður eða deilur um þetta mál, en ég tel að það sé mikils virði að í framleiðslumálum landbúnaðar sé þetta stjórntæki, kjarnfóðurgjald, mögulegt og í lögum svo að mögulegt sé að nota það. Það er virkasta leiðin til að hafa áhrif á framleiðslu. Og þó að nú hafi jafnvægi náðst í mjólkurframleiðslu er ábyggilega nauðsyn að hafa það áfram í lögum.

Ég vil svo enda ræðu mína með því að endurtaka þakklæti mitt til hv. nefndar og lýsa yfir fullum stuðningi við þær brtt. sem meiri hl. n. hefur lagt fram.