06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4047 í B-deild Alþingistíðinda. (4140)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í efnisatriði eða ræða þetta mikið, en ég kemst ekki hjá því að svara hv. þm. Steinþóri Gestssyni örfáum orðum.

Hann ræddi um að hér væri ekki um að ræða, eins og að þessu væri staðið frá hendi meiri hl. landbn., að staðfesta brbl. Það er að því leyti til rétt að þau eru ekki staðfest frá orði til orðs eins og þau voru gefin út. En efnisatriðin í brbl. eru staðfest, og það er það sem skiptir máli í þessu sambandi. Þó að n. breyti frv. eða jafnvel brbl. tel ég að það sé hægt að segja að brbl. séu staðfest, en um lítils háttar breytingar sé að ræða.

Eitt af því, sem hann fann að, var þetta, sem hæstv. landbrh. kom inn á í sínu máli, að skattstjórunum væri skylt að gefa upplýsingar. Þegar lögin voru til umfjöllunar í landbn. 1979 fengum við einmitt einn virtasta lögfræðing í landinu til að orða þetta, — mann sem er sérfræðingur á þessu sviði. Þetta er ekki orðalag þeirra sem voru í n. þá, heldur þessa lögfræðings. Ég verð að segja það, að þrátt fyrir orð hv. þm. Steinþórs Gestssonar treysti ég því — hef treyst og treysti því — að ekki sé hægt í raun og veru með rökum að finna að þessu ákvæði eins og það var sett í lögin 1979.

Það, sem ég gerði í sambandi við till. þeirra hv. þm. Sjálfstfl., var ekkert annað en að ég las kafla upp úr till. þeirra orðrétt, en við það get ég bætt, að ef ætti að fara að setja ákvæði í lög um hvernig ætti t. d. að framkvæma álagningu kjarnfóðurskatts, þá færi slíkt ekki frá þinginu sem lög. Það eru mjög skiptar skoðanir um hvernig á að standa að þessum málum. Það kom í ljós 1979 og það kom í ljós nú, að skoðanirnar eru hér um bil eins margar og mennirnir eru margir, t. d. í landbn. Það, sem við náðum saman um 1979 og raunar nú, er að það sé eðlilegt og það sé sjálfsagt að bændasamtökunum sé gert kleift að hafa rúmar heimildir sem þau bera svo ábyrgð á hvernig þau nota. Og það er einmitt þessi leið sem ég vitnaði í í till. sjálfstæðismanna, og ég er þeim alveg sammála um þetta atriði.

Ég vil svo ekki fara að ræða þetta frekar. Málið var lengi hjá nefndinni. Ástæður eru þær, að það voru, eins og ég segi, skiptar skoðanir um þetta og menn vildu ræða og athuga til hlítar fullyrðingu Helga V. Jónssonar og Verslunarráðsins. Ég las ekki upp álitsgerð Verslunarráðsins, en það má segja að það hafi komist að svolítið annarri niðurstöðu en þeir lögfræðingar sem hæstv. landbrh. leitaði til. Eitthvað eru því skiptar skoðanir þessara manna um þessi málefni. Ég fyrir mitt leyti tel það ekki verjandi fyrir Alþingi að ganga ekki svo frá þessum málum að bændasamtökin hafi ekki möguleika á að stjórna þessum málum. Þeir verða að gera það upp innan sinna samtaka hvernig þessum heimildum er beitt. Það hefur verið a. m. k. mín stefna og ég vona flestra bænda, að ef Búnaðarþing og aðalfundur Stéttarsambandsins eru sammála um svona mál, þá taki menn a. m. k. fullt tillit til þeirrar afstöðu þegar um málefni, sem varða bændastéttina eina og einvörðungu er að ræða.