07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (4143)

292. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það ber að fagna því, að þessi hv. deild hefur haft hraðar hendur við afgreiðslu þess frv. sem hér er til umr. Staðreyndin er hins vegar sú, að aukið framlag Íslands til aðstoðar við hinn vanþróaða heim er fyrst og fremst háð því, hvort við höfum manndóm og pólitískt þrek til þess að taka ákvörðun um aukið fjárframlag til þessara mála.

Vissulega er það góðra gjalda vert, eins og er gert í þessu frv., að koma fastari skipan á meðferð þessara mála. En eins og komið hefur fram hjá hæstv. utanrrh. er spurningin um aukna þátttöku Íslands í þessu starfi fyrst og fremst háð því, hvort fjárframlög Íslendinga til þessara mála aukast á næstu árum eða ekki.

Það er orðinn nokkuð langur tími síðan Sameinuðu þjóðirnar mörkuðu þá stefnu, að 1% af þjóðartekjum skyldi varið til aðstoðar við þann hluta heimsins sem býr við sára fátækt, — svo sára fátækt að í dag eru tæplega 1000 milljónir manna í heiminum sem lifa á stigi algjörs hungurs. Árstekjur um 900 milljóna manna nema um 75 bandarískum dollurum.

Nokkrar þjóðir í Evrópu, t. d. Norðurlandaþjóðir og einnig Hollendingar, hafa gengið á undan og ákveðið á undanförnum árum og hrundið í framkvæmd að auka framlag sitt til þróunarlandanna upp í þá prósentutölu sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu markað. Við Íslendingar höfum hins vegar verið hér langt á eftir, svo langt á eftir og með svo lágt hlutfall að það er í raun til vansa að við sem búum við einhver bestu lífskjör í veröldinni og höfum gnægð auðlinda í okkar landi, skulum leggja fram til þessara mála svo lítið sem raun ber vitni. Reyndar eru þær tölur, sem gefnar eru upp af opinberri hálfu, látnar hækka frá því, sem raunverulegt er, með því að telja til framlaga okkar í þessu skyni hluti sem vafasamt er að eigi að reikna með.

Sameinuðu þjóðirnar hafa markað þá stefnu, að þar eð ljóst sé, að 1% markið muni ekki hafa þann víðtæka pólitíska stuðning í veröldinni sem vonast var til í upphafi, verði miðað að því að árið 1983 verði 0.7% af þjóðartekjum einstakra landa varið til þessara málefna. Við Íslendingar höfum hins vegar aðeins náð um 1/10 af þessari upphæð.

Ég vildi við lokaumræðu þessa frv. í þessari hv. deild lýsa þeirri skoðun minni, að það sé nauðsynlegt að allir stjórnmálaflokkar í landinu taki upp viðræður sín á milli á næstu vikum og mánuðum um að breyta þessu ófremdarástandi, að hrinda því slyðruorði af okkur sem opinberar tölur í þessum efnum sýna á alþjóðavettvangi. Með haustinu verði komið samkomulag stjórnmálaflokkanna í landinu um að hækka framlög okkar í þessum efnum á næstu árum í áföngum þannig að í síðasta lagi fyrir miðbik þessa áratugs hafi Íslendingar náð því marki sem Sameinuðu þjóðirnar lögðu til fyrir nokkru að ætti að verða náð 1983, að a. m. k. 0.7% af þjóðartekjum væri varið til þessara mála.

Vissulega eru það háar upphæðir, mjög háar upphæðir miðað við það sem við verjum í dag. Má áætla að það séu um 14 milljarðar gkr. á ári sem við þyrftum þá að verja í þessu skyni. Það er stórt stökk frá þeim upphæðum sem við verjum í dag. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt, ef við viljum halda reisn okkar í samfélagi þjóðanna, að sýna að við látum okkur annt um þá ömurlegu eymdarfátækt sem þúsundir milljóna búa við í heiminum. Við viljum leggja okkar litla lóð á þá vogarskál að jafna kjörin í veröldinni. Allir stjórnmálaflokkar í landinu eiga að taka höndum saman um að breyta þessu.

Vissulega hefði verið viðeigandi að koma slíku í framkvæmd um leið og þetta frv. var afgreitt. En bæði vegna þess, hve seint það er fram komið, og eins vegna fjarveru hæstv. utanrrh., sem ég veit að er mikill stuðningsmaður þessa máls, held ég að nauðsynlegt sé að við geymum umræður um það þar til þing kemur saman í haust, en notum tímann í millitíðinni til að kanna sameiginlegan vilja allra flokka í landinu til þess að gera hér breytingar á.

Þessu, herra forseti, vildi ég lýsa við lokaafgreiðslu málsins hér í deildinni og setja fram þá ósk, að vonandi berum við gæfu til þess á næstu mánuðum að ná samstöðu um það, hvernig Íslendingar geta í áföngum á næstu fjórum árum aukið til muna hlutdeild sína í því að bæta kjör fólks um allan heim og sýna á alþjóðavettvangi að við erum reiðubúnir að okkar leyti að taka þátt í því víðtæka alþjóðlega starfi sem nauðsynlegt er ef friður og framfarir eiga að vera ríkjandi í veröldinni.