07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (4144)

292. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tek undir margt af því sem fyrri ræðumaður sagði. Okkur ber nauðsyn til að sinna neyðarópi þeirra milljóna sem búa við hungur og skort, og það er til skammar hve við Íslendingar höfum sinnt þessu lítið.

Ég vil hins vegar benda á að á s. l. árum hefur framlag okkar svo til staðið í stað þrátt fyrir gífuryrði ýmissa manna um nauðsyn þess að bæta hér úr, þrátt fyrir gífuryrði manna sem nú hafa aðstöðu til innan ríkisstj. að koma því á framfæri að úrbóta sé þörf í þessum málum.

Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd Alþfl., að við erum reiðubúnir til hvers kyns umræðna um þessi mál með það að markmiði að auka framlag okkar til þessarar brýnu þarfar og þá verði stefnt miklu hærra en gert er nú í fjárlagafrv. Ég vona að slíkar viðræður geti hafist sem fyrst og að eining verði um að auka framlag til þessara mála.