07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (4145)

292. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er auðvitað alveg rétt, sem hér hefur fram komið, að það er ekki vansalaust að okkur skuli ekki hafa tekist að auka þetta framlag okkar til aðstoðar við þróunarlöndin meira en raun ber vitni. Ég vil þó minna á það, að eitt það myndarlegasta, sem gert hefur verið á þessu sviði — þá á ég við þá aðstoð á sviði sjávarútvegs sem veitt hefur verið íbúum Grænhöfðaeyja — var gert á þeim tíma sem ráðh. Alþfl. fór með fjármál í ríkisstj.

Mér finnst það hins vegar svolítið furðulegt að Alþb., sem hæst talar nú um þessi mál sem og jafnan áður og fer með fjármál í ríkisstj., skuli ekki hafa látið frá sér fara neinar till. um aukningu í þessa veru, aukningu og hækkun á þessari prósentu, aukna aðstoð við þróunarlöndin, þar sem það fer með fjármál í ríkisstj. Það er gott og blessað að koma hér og tala almennum orðum um þetta og sjálfsagt að taka undir það og tala um að nauðsynlegt sé að koma á samstarfi stjórnmálaflokkanna til þess að reyna að auka þetta og laga. En hvers vegna í ósköpunum, þegar Alþb. hefur embætti fjmrh. í ríkisstj. og öll þau völd sem það hefur sýnt og sannað að það hefur í þessari ríkisstj., — hvers vegna þá ekki aðgerðir, hvers vegna bara orð?