07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (4147)

292. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þær undirtektir, sem hér hafa komið fram við þau tilmæli sem ég flutti hér áðan, og vænti þess, að það geti orðið til þess að fulltrúar þingflokkanna ásamt hlutaðeigandi ráðh., utanrrh. og fjmrh., ræði í sumar um nýtt átak í þessum efnum.

Ég ætla ekki að fara að deila hér við þá tvo þm. Alþfl. sem töluðu um það hverjum seinagangur í þessum málum sé að kenna. Þar bera allir flokkar sök. Það var tilkynnt af þáv. utanrrh. haustið 1978, að hann væri að leggja fram frv. um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og var frestað kjöri í stjórn núverandi stofnunar þess vegna. Samt sem áður leið ferill þess ágæta manns á enda án þess að frv. sæi dagsins ljós. Það er fyrst núna að koma fram. Ég veit að það hefur verið skoðun margra í mínum flokki, að menn vildu bíða eftir að ný skipan kæmist á þessi mál áður en það væri tekið upp. En hitt er síðan alveg rétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði áðan, að það væri hægt að auka stuðning við verkefnið á Grænhöfðaeyjum — og á reyndar að gera að mínum dómi þótt þessi mál séu ekki formlega í höfn.

Ég held að það sé ekki æskilegt að við séum að deila hér um það liðna í þessum efnum, það eiga allir flokkar einhverja sök í þeim efnum, en reynum á komandi mánuðum að snúa þessari þróun við í sameiningu.