07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (4169)

139. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í Nd. Alþingis kom fyrir nokkru fram frv., 139. mál, um söluskatt með áorðnum breytingum. Þetta frv. fól í sér að heimilt væri að fella niður söluskatt af tilteknum vörutegundum, þ. á m. vogum og rafeindabúnaði í flokkunarvélar. Þetta mál kom nokkuð til umr, meðal þm. áður en það var flutt. Ég var einn þeirra sem ræddu þetta mál meðan það var á undirbúningsstigi, og ég taldi strax að málið hefði þann vankant að með því að fella niður söluskatt af enn einni vörutegundinni væri verið að gera innheimtu söluskatts snúnari og erfiðari, og er hún þó nógu snúin fyrir vegna þeirra fjöldamörgu undanþáguákvæða sem í lögum eru um greiðslu söluskatts.

Frv. var flutt af nokkrum áhugamönnum um þetta mál og var ekkert við það að athuga. Það fór síðan til nefndar, en kom svo snögglega úr nefndinni fyrir einni viku og rann þá skjótlega í gegnum Nd. Alþingis. Í nál., sem undirritað var af öllum nm. fjh.- og viðskn. Nd., var þannig tekið til orða:

„Nefndin hefur rætt frv. þetta á nokkrum fundum sínum og haft samráð við fulltrúa frá fjmrn. Nefndin hefur orðið sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt.“

Ég tel óhjákvæmilegt að láta þess getið hér, að þessi ummæli í nál. í Nd. eru mjög villandi, að ekki sé meira sagt. Fjmrn. sendi umsögn um þetta mál snemma í vetur og mælti mjög eindregið gegn samþykkt frv., og öll afskipti fjmrn. af málunum voru á þann veg, að mælt var gegn því að það næði fram að ganga. En eftir sem áður leyfa nm. í fjh.- og viðskn. Nd. sér að komast þannig að orði, að haft hafi verið samráð við fulltrúa frá fjmrn., og gefa þannig ótvírætt í skyn að þetta sé gert með samþykki rn. og fulltingi. Þetta tel ég vera ótvíræða blekkingu eða fölsun og get ekki látið hjá líða að mótmæla því, að þannig skuli að málum staðið. Síðan rann þetta mál svo snögglega í gegn, að t. d. vissi ég ekki fyrr en málið hafði verið afgreitt frá Nd.

Ég hef vísað til þess hér, að fjmrn. hafi sent neikvæða umsögn um þetta mál, og ég tel óhjákvæmilegt að lesa hana hér vegna þess að þar koma fram þau rök sem fram voru borin gegn þessu máli, en umsögnin var á þessa leið:

„Ráðuneytið vísar til erindis fjh.- og viðskn., dags. 8. des., þar sem m. a. er óskað umsagnar um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 22. mars 1960, um söluskatt, með áorðunum breytingum, 139. mál. Í umræddu frv. er lagt til að söluskattur af vogum og rafeindatækjum til mælinga og skoðana í fiskiðnaði verði felldur niður. Af þessu tilefni tekur rn. fram eftirfarandi:

Hafa verður í huga að samkv. skuldbindingum í fríverslunarsamningum Íslendinga við EFTA og Efnahagsbandalagið verða umræddar vörur ekki undanþegnar söluskatti nema það sama verði og gert við sams konar vörur innfluttar. Af þessu má ljóst vera að niðurfelling söluskatts af nefndum tækjum kemur sem slík ekki til með að styrkja samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda þeirra gagnvart innflutningi. Þá skal bent á að tæki þau, sem hér um ræðir, eru líklega í mörgum tilvikum ekkert frábrugðin hliðstæðum tækjum til notkunar í öðrum iðn- eða þjónustugreinum. Því verður að telja mjög varasamt að binda niðurfellingu söluskatts af þessum tækjum við fiskiðnaðinn einan vegna hættu á misnotkun og framkvæmdaörðugleikum við söluskattseftirlit. Reynslan af aðgreiningu sams konar vara eftir notkun sýnir að hún er óframkvæmanleg. Eina leiðin til að gera ákvæði sem þetta framkvæmanlegt með góðu móti er því að fella niður söluskatt af tollskrárnúmerum, 84.20.10 og 90.28.39. Cif-verðmæti innflutnings á árinu 1980 nam 305 millj. gkr. í tollnr. 84.20.10 og 507 millj. gkr. í tollnr. 90.28.39. Tekjutap ríkissjóðs af lagaboði sem þessu yrði samkv. þessu því væntanlega ekki undir 3 millj. nýkr. á þessu ári, sem telja verður mjög mikið miðað við það hagræði sem fiskiðnaðurinn og innlendir framleiðendur umræddra vara eiga að vænta af niðurfellingu söluskattsins.

Með vísan til þess, sem að framan segir, getur rn. ekki mælt með að umrætt frv. nái fram að ganga.“

Í sambandi við þetta mál við ég taka það fram, að vissulega kemur mjög til álita að lækka gjöld af aðföngum hvers konar framleiðslustarfsemi hér á landi. Á það ekki aðeins við um iðnað, heldur líka um sjávarútveg og landbúnað. Ég held að óhjákvæmilegt sé að framkvæma heildarendurskoðun á tollalöggjöfinni og á ákvæðum um gjaldtöku yfirleitt og þá sérstaklega að leitast við að gera aðföng og framleiðslutæki atvinnuveganna sem allra ódýrust í innkaupi. Það er enginn vafi á því, að það er mikið nauðsynjamál að þetta verði gert, og ég efast ekkert um að vogir og rafeindatæki til mælinga og skoðana í fiskiðnaði eru meðal þeirra tækja sem sérstaklega þarf að hafa þarna í huga. En ég tel að það verði að vera eitthvert samræmi í hlutunum og að þessi tæki skeri sig ekki neitt sérstaklega úr miðað við margt annað sem daglega er óskað eftir niðurfellingu gjalda á. Ég tel því að samþykkt þessa frv. sé ákaflega hæpin út af fyrir sig, að verði að skoða þessi mál í einhverju heildarsamhengi, auk þess sem ég get ekki látið hjá líða að mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í Nd., þar sem reynt er að láta líta svo út að þetta sé gert með sérstöku samþykki eða í samráði við fjmrn. þegar það var einmitt þvert á móti.

Þegar málið var afgreitt frá Nd. komst einn hv. þm. þar svo að orði, að þetta væri sérstakt samkomulagsmál. Ég mótmæli því að svo sé. Það hefur ekki verið haft neitt samkomulag við mig um framkvæmd þessa máls.