10.11.1980
Neðri deild: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að sjálfsögðu, eins og allir aðrir, þær umr. sem hafa farið fram utan Alþingis og þá sér í lagi í blöðunum, en ég kenni hvorki einstökum þm. né öðrum aðilum á Alþingi, sem fjallað hafa um málið, að umr. hefur átt sér stað úti á meðal fólksins eins og hún hefur átt sér stað. Ég tel að þetta mál sé allt of stórt mál til þess að reynt sé að breiða yfir vandann sjálfan með ásökunum annaðhvort í garð einstakra þm. eða útúrsnúningum um málið. Þá á ég við þm. úr fleiri en mínum flokki, ég á við þm. almennt. Til þess að það fari ekkert á milli mála, þá held ég að árásir á pólitískan andstæðing minn, Ólaf Ragnar Grímsson í þessu máli hafi verið óheiðarlegar á margan hátt. En ég ætla ekki að verja gerðir hans eða störf í þessum málum, það er langt frá því.

Ég hef kynnt mér þetta mál þó nokkuð. Ég hef staðið í þeirri meiningu fram til þess að fundurinn hér var settur, að þau skilyrði, sem koma frá Ed. og hafa verið samþ. þar af meiri hl., með undirskrift Ólafs Ragnars Grímssonar, Gunnars Thoroddsens, Vigfúsar B. Jónssonar, Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Davíðs Aðalsteinssonar, séu þau skilyrði sem Alþ. kemur til með að samþykkja og ef Alþ. samþykkir þau séu það þau skilyrði sem Flugleiðir verði að hlíta til að fá þá fyrirgreiðslu sem hér um ræðir. Ég tek fyrir mitt leyti undir till. hv. 2. þm. Reykn., að ég hefði viljað sjá þessi skilyrði í 5. gr. g er á móti öllum heimildarákvæðum sem gefa ráðh. eða embættismönnum of mikið vald, — oft vald sem þeir taka sér langt umfram anda þann sem er í lögum samþykktum af Alþingi Íslendinga. Þess vegna hefði ég getað staðið að till. Alþfl. eins og hún var lögð fram í Ed.

Þetta frv. gerir ráð fyrir fyrirgreiðslu með skilyrðum sem hljóðar upp á 3 millj. dollara samkv. 1. gr. og 12 millj. skv. 3. gr., alls 15 millj. dollara, fyrir utan ýmislegt annað. En á sama tíma sem Alþingi Íslendinga er að störfum til að finna fé til aðstoðar við hlutafélagið Flugleiðir hf. kemur blaðafrétt í Morgunblaðinu. Með leyfi forseta, segir svo 8. nóv. undir stórri fyrirsögn.:

„Fjárhags- og viðskiptanefnd skilyrðir ríkisábyrgð til Flugleiða.“ Og stór fyrirsögn: „Flugleiðamenn taka afstöðu til skilyrðanna eftir helgina.“ Síðan segir: „Stjórn félagsins hefur setið á fundi í dag og rætt nál. fjh.og viðskn. Ed. Alþingis. Umræðum um málið var hins vegar ekki lokið þegar fundi var frestað. Stjórnin mun síðan væntanlega taka afstöðu til málsins á fundi eftir helgina.“

Þetta er orðrétt haft eftir forstjóra Flugleiða, Sigurði Helgasyni, og er í Morgunblaðinu 8. nóv. Síðan kemur meira um Flugleiðamálið 8. nóv. Það er í Dagblaðinu. Þar segir:

„Flugleiðamálið: Stríða skilyrði ríkisins gegn hlutafélagalögum?“ Og undirfyrisögn: „Stjórn Flugleiða kom í veg fyrir sameiningu starfsaldurslista flugmanna.“

Og áfram heldur greinin: „Sala á hlutabréfum Flugleiða hf. í Arnarflugi hf. til starfsmanna Arnarflugs sætti andstöðu á stjórnarfundi Flugleiða sem haldinn var í gær.

Andstaða gegn aðild starfsmanna Flugleiða hf. með einum stjórnarmanni, eins og skilyrði fjh.- og viðskn. Ed. Alþ. gerir einnig ráð fyrir, kom einnig fram á stjórnarfundi Flugleiða.

Stjórnarfundurinn fór yfir þau skilyrði sem talið er að Alþingi setji fyrir samþykkt um heimild ríkisstj. til fjárhagsaðstoðar við Flugleiðir hf. Er þá tekið mið af afgreiðslu fjh.- og viðskn. Ed. Taldi stjórn Flugleiða hf. að vafi kynni að leika á um það hvort skilyrðin væru í fullu samræmi við gildandi lög um hlutafélög.

Ákvað stjórn Flugleiða hf. að fela Jónasi Aðalsteinssyni hrl. að kanna hinn lögfræðilega þátt málsins.“ Ég lýk lestrinum á þessum stað í greininni. Ég sé ekki að það hafi neina þýðingu að halda honum áfram. Ég vil því spyrja sjálfan mig úr þessum virðulega ræðustól: Til hvers er Alþingi Íslendinga látið vinna að þessu máli viku eftir viku og þm. liggja undir alls konar ámæli fyrir vinnubrögð o.fl. ef stjórn hlutafélagsins, sem fer fram á ríkisaðstoð, sem þarf á ríkisaðstoð að halda til að halda áfram rekstri sínum, tekur ákvörðun um að skilyrði, sem Ed. hefur nú sett, séu ekki samþykkjanleg og stjórn hlutafélagsins komi með brtt. við það sem samþ. hefur verið?

Ég er í fjh.- og viðskn. og hafði hugsað mér að lesa þær tvær þykku möppur sem ég var að fá í hendur nú til að kynna mér þetta mál enn frekar en ég hef þegar gert. Ég tel mig hafa lesið mjög mikið um þetta mál, en það er ýmislegt sem ég þarf að fá betri skýringar á. Hvernig stendur t.d. á því, að 1977 sýnir félagið verulegan ágóða, en tveimur árum seinna er það komið verulega undir í rekstri á Norður-Atlantshafsleiðunum? Ég get ekki fyrir mitt leyti boðið annað en draga mig bókstaflega í hlé sem nm. þann tíma sem málið er í afgreiðslu, ef það er ætlunin að hraða þessu þannig að svar fáist ekki við spurningum. En á þessu stigi vil ég beina orðum mínum til hæstv. samgrh. Spurning mín er borin upp til þess að fá hreinar línur hvað snertir um þetta mál. Hæstv. samgrh. svarar vonandi: Samþykki stjórn Flugleiða hf. ekki þau skilyrði sem Ed. Alþingis hefur þegar samþ. og liggur fyrir þessari hv. deild að samþykkja, mun þá fyrirgreiðsla af hálfu ríkisstj. falla niður?