07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4064 í B-deild Alþingistíðinda. (4176)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ástæða er við 3. umr. til að orðlengja þetta mjög. En það er eftirtektarvert, að hæstv. landbrh. viðurkenndi óbeint í ummælum sínum áðan að eins og staðið var að brbl. hefði verið höggvið mjög nærri stjórnarskránni, svo að hann treysti sér ekki til annars en kalla til lögfróða menn til þess að athuga, hvort hægt væri að bæta eitthvað þar úr, og þykist með því frv., sem hér liggur fyrir, sneiða fram hjá stjórnarskránni eftir því sem hægt er.

Ég get á hinn bóginn ekki fallist á það — og vil ítreka það hér — að með fóðurbætisskatti eins og hann er hér hugsaður sem hagstjórnartæki, — þá get ég ekki fallist á að þvílík heimild eigi að fara fram hjá Alþingi og að landbrh. eigi að geta skotið sér undan þeirri ábyrgð að gera þingheimi grein fyrir því, hvernig hann hefur beitt þessum heimildum. Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé að þessi skattur komi inn í fjárlögin og landbrh. lýsi því við meðferð fjárlaga, hvaða sjónarmið hann muni hafa til hliðsjónar við yfirstjórn þessara mála. Ég held að það sé lágmarkskrafa sem hægt sé að gera til eins ráðh., Alþingi geti ekki undir öðrum kringumstæðum sóma síns vegna afsalað sér þessu valdi sem, eins og ég sagði áðan, að bestu bænda yfirsýni brýtur í bága við stjórnarskrána.

Ég skal ekki fara mjög mörgum orðum um það, hvort rétt sé hjá hæstv. landbrh. að honum hafi tekist að koma í veg fyrir að bændum væri mismunað, eins og að fóðurbætisskattinum var staðið. Við vitum að ýmsir bændur höfðu skorið niður sinn bústofn til þess að framleiða samkv. kvótanum. Það fyrirfinnast í þessu landi ýmsir stórbændur og smábændur sem hefur tekist að halda á stjórn síns búskapar með þeim hætti að afurðir eru í samræmi við þann kvóta sem þeim var skammtaður. Þessir bændur verða að greiða fóðurbætisskatt ofan á tekjumissinn vegna niðurskurðarins. Þetta er hæstv. landbrh. kunnugt. Honum er einnig kunnugt að hið vonda sumar 1979 hafði þau eftirköst að framleiðslan hlaut að dragast saman. Ég hef meira að segja heyrt því haldið fram, að fóðurbætisskatturinn, eins og að honum var staðið, muni til langframa valda meira tjóni í framleiðslumálum landbúnaðarins en bætt verði á skömmum tíma. Einkanlega á það við um Eyjafjörð, að menn urðu fyrir tvöföldum áföllum vegna þess að þannig var á þessum málum haldið, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. veit allra manna best. Ég hygg að tjón eyfirskra bænda margra hverra nemi millj. gkr. af þeim brbl. sem hæstv. landbrh. lagði fyrirvaralaust á og stóðust ekki stjórnarskrá að margra manna áliti eða a. m. k. jaðraði við að stæðust ekki stjórnarskrá.

Ég vil svo ítreka það, að ég tel að þær heimildir, sem hér felast í skyldu skattstjóra til þess að gefa Framleiðsluráði upplýsingar, séu langt umfram það sem nauðsynlegt sé og eðlilegt til þess að hægt sé að halda uppi stjórn á framleiðslumálum landbúnaðarins. Það mundi engin önnur stétt í landinu sætta sig við ákvæði af þessu tagi. Og ég sé ekki að bændur eigi þar að gjalda þess, að forustumenn þeirra standi ekki nógu vel á þeirra rétti. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það, að deildin nemi á brott þessar rúmu heimildir Framleiðsluráðsins til þess að hnýsast í einkamál bænda.