07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4066 í B-deild Alþingistíðinda. (4180)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og fram kom við 1. umr. um þetta mál í haust, þegar frv. var hér til 1. umr., hafði í kjölfar þess, að innflutningur á sælgæti og kexi hafði verið gefinn frjáls, aukist mjög innflutningur þessa varnings og kom það niður á sölu á innlendri framleiðslu uns svo fór að bæði framleiðendur og verkafólk í íslenskum sælgætis- og kexiðnaði voru farin að hafa stórar áhyggjur af þeirri þróun sem við blasti. Bæði iðnrekendur og eins verkafólk í þessum iðnaði höfðu þess vegna samband við stjórnvöld og óskuðu eindregið eftir því, að eitthvað yrði gert — ekki til þess að stöðva þennan innflutning, heldur til þess að gefa íslenskum iðnaði tækifæri til þess að laga sig frekar að þeirri nýju samkeppni sem hann átti við að etja í þessu sambandi. Hæstv. ríkisstj. tók þess vegna þá ákvörðun að setja brbl. um sérstakt innflutningsgjald á sælgæti og kex. Í brbl. er ákvæði um að þetta innflutningsgjald eigi að falla úr gildi 1. mars 1982.

Það hefur margoft komið fram hjá okkur Alþfl. mönnum hér á Alþingi, að við teljum að þegar slíkar aðgerðir eins og hér um ræðir eru gerðar til stuðnings við tiltekna innlenda framleiðslu, sem á í erfiðri samkeppni við innflutta framleiðslu af svipuðum toga, og til þess að vernda atvinnutækifæri fólksins, sem þar starfar, þá eigi frá upphafi að miða slíkar aðgerðir við að þær renni út á tilsettum tíma þannig að menn gangi að því gefnu hvað þessi sérstaki stuðningur, sem auðvitað kemur fram í hærra vöruverði en þyrfti að vera, á að endast lengi og hvað menn fá langt ráðrúm til þess að búa sig undir frekari samkeppni. Það kom því fram strax við 1. umr. þessa máls, að við þm. Alþfl. í þessari hv. d. og raunar í Ed. líka værum reiðubúnir til þess að styðja þetta sérstaka tímabundna innflutningsgjald, en bentum hins vegar á hvort ekki væri eðlilegt að í stað þess, að það félli niður í einni svipan 1. mars 1982, eins og frv. gerir ráð fyrir, en yrði að fullu innheimt til þess tíma, þá yrði gildistökuákvæðinu breytt þannig að það yrði afnumið í áföngum til 1. mars 1982, svo að gjaldið þyrfti ekki að skipta svo miklu máli þegar það yrði endanlega afnumið. Á þetta sjónarmið okkar var hins vegar ekki fallist í nefndinni. Við gerum það út af fyrir sig ekki að svo stóru atriði að við snúumst gegn frv. um staðfestingu á brbl. þess vegna.

Frá því að frv. var lagt fram til staðfestingar á þessum brbl. gerðist það hins vegar, að ríkisstj. virtist hafa skipt um skoðun, því að nokkru eftir að þessi brbl. voru gefin út lagði hún með samþykkt stjórnarmeirihluta á Alþingi á þessa sömu innlendu framleiðslu sérstakt vörugjald sem hefur nú nýlega verið lækkað nokkuð á gosdrykkjum. Af þessum ástæðum m. a. undirritaði ég nál. með fyrirvara, því að satt að segja fæ ég ekki séð hvernig ríkisstj. getur rökstutt brbl. sín frá því í sumar með sömu rökum og hún gerði þá eftir að hafa lagt á innlenda sælgætisframleiðslu það sérstaka vörugjald sem hæstv. ríkisstj. gerði með atfylgi meiri hl. síns hér á Alþingi nú fyrir nokkrum vikum. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á því, að bæði þessi gjöld eru nú staðreynd, bæði hið tímabundna innflutningsgjald og enn fremur hið sérstaka vörugjald. Og ég bið menn aðeins að hugleiða hvaða áhrif það mundi hafa fyrir íslenskan sælgætis- og kexiðnað ef hið sérstaka tímabundna innflutningsgjald yrði nú fellt niður með því að þetta frv. yrði ekki samþykkt og brbl. þar með felld úr gildi, en eftir stæði hið sérstaka vörugjald sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á hina innlendu framleiðslu. Þá yrði staða íslensks iðnaðar að þessu leytinu til mun verri en hún var áður en þetta sérstaka tímabundna innflutningsgjald var lagt á hinn innflutta varning. Fæ ég ekki séð hvernig hv. sjálfstæðismenn geta í raun réttri greitt atkv. gegn þessu frv. um tímabundið innflutningsgjald þegar þær afleiðingar eru hafðar í huga, að verði þetta frv. fellt mundi samkeppnisaðstaða hins íslenska iðnaðar vera verri eftir þá aðgerð heldur en í sumar áður en brbl. um hið sérstaka tímabundna innflutningsgjald voru sett, vegna þess að það hefur breyst í millitíðinni að á hina innlendu framleiðslu hefur, eins og ég sagði áðan, verið í vetur lagt hið sérstaka vörugjald.